Stríð Úkraínskur hermaður fer um þorpið Mala Rohan í nágrenni Karkív, sem leyst var úr höndum Rússa í gær.
Stríð Úkraínskur hermaður fer um þorpið Mala Rohan í nágrenni Karkív, sem leyst var úr höndum Rússa í gær. — AFP/Aris Messinis
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Nokkuð var barist í nágrenni Kænugarðs í gær og var Úkraínuher sagður hafa náð úthverfaborginni Irpin aftur á sitt vald.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Nokkuð var barist í nágrenni Kænugarðs í gær og var Úkraínuher sagður hafa náð úthverfaborginni Irpin aftur á sitt vald. Oleksandr Markúsjín, borgarstjóri Irpin, sagði á samfélagsmiðlinum Telegram að borgin væri nú aftur á valdi Úkraínuhers, og að nú stæðu yfir aðgerðir til að sópa síðustu leifum rússneska hersins burt frá Irpin. Friðarviðræður milli Rússa og Úkraínumanna munu fara fram í Tyrklandi í dag, en Volodimír Selenskí Úkraínuforseti gaf til kynna um helgina að hann væri opinn fyrir því að landið tæki upp hlutleysisstefnu í varnarmálum.

Markúsjín varaði hins vegar íbúa borgarinnar við því að enn væri of hættulegt fyrir þá að snúa aftur heim. „Við erum að treysta nýju víglínuna okkar og munum halda áfram og frelsa Bucha, Hostomel og Vorsel,“ sagði hann. Bandaríska varnarmálaráðuneytið sagðist ekki geta staðfest að Irpin væri nú á valdi Úkraínumanna, og náðu Rússar um tíma að skera á rafmagn til um 80.000 heimila í höfuðborginni sjálfri í gær.

Ganna Maljar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, sagði ljóst að Rússar vildu enn reyna að hertaka Kænugarð, þar sem það myndi í raun þýða að Úkraína væri hertekin.

Gagnsókn Úkraínuhers var einnig sögð hafa náð á sitt vald þorpinu Mala Rohan í nágrenni Karkív, auk þess sem bardagar stóðu yfir um borgina Kerson, en hún er eina stórborg Úkraínu sem Rússar hafa náð á sitt vald til þessa í innrásinni.

Gríðarlegur skaði af innrásinni

Stjórnvöld í Úkraínu sögðu hins vegar að ástandið í hafnarborginni Maríupol væri nú hrikalegt, og að árásir Rússa hefðu breytt henni „í duftið eitt“. Áætla stjórnvöld að um 10.000 óbreyttir borgarar hafi fallið í innrás Rússa til þessa, þar af sé rúmlega helmingur í Maríupol.

Um 160.000 manns eru enn í borginni, en komast ekki frá henni vegna umsáturs Rússa. Ákváðu Úkraínumenn að þiggja ekki boð Rússa um flóttaleiðir frá umsetnum borgum landsins í gær, þar sem óttast var að Rússar myndu ráðast á þá sem nýttu sér þær.

Þá sögðu stjórnvöld í Kænugarði að innrásin hefði valdið skaða sem næmi nú um 565 milljörðum bandaríkjadala, eða um 73.574 milljörðum króna. Júlía Svirídenkó, efnahagsráðherra Úkraínu, sagði að inni í þeirri tölu væru bæði sá skaði sem innrásin hefði valdið nú þegar, auk fyrirséðs taps á viðskiptum og í hagkerfinu.

Takmarka ferðir „óvinveittra“

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lýsti því yfir í gær að Rússar hygðust takmarka mjög komur fólks frá „óvinveittum ríkjum“ til landsins. Eru Bandaríkin, Bretland og öll aðildarríki bæði ESB og EFTA á lista stjórnvalda yfir óvinveitt ríki, auk Ástralíu, Japans, Kanada, Nýja-Sjálands og Suður-Kóreu.

Þá tilkynnti ritstjórn óháða dagblaðsins Novaja Gaseta að það myndi ekki koma út fyrr en innrás Rússa lyki. Dmitrí Muratov, aðalritstjóri blaðsins, hlaut friðarverðlaun Nóbels í fyrra. Mun ákvörðunin vera tekin vegna nýlegra laga, sem leggja strangar hömlur á fréttaflutning af hernaðaraðgerðum Rússa, en aðstandendur blaðsins óttast að útgáfa þess yrði bönnuð, héldi það áfram að koma út.

Tilkynning blaðsins kom sama dag og ölgerðirnar Carlsberg og Heineken greindu frá því að þær hefðu ákveðið að hætta viðskiptum og starfsemi í Rússlandi vegna innrásarinnar. Sögðu forsvarsmenn Carlsberg þetta rétta ákvörðun í ljósi aðstæðna, en Rússland er einn stærsti markaður fyrirtækisins.

Eitrað fyrir Abramovits

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal (WSJ) greindi svo frá því um eftirmiðdaginn í gær að eitrað hefði verið fyrir rússneska ólígarkanum Roman Abramovits, eiganda Chelsea, auk tveggja fulltrúa úr sendinefnd Úkraínu þegar vopnahlésviðræður fóru fram í upphafi marsmánaðar.

Samkvæmt heimildum blaðsins flagnaði húð af andliti og höndum þremenninganna, auk þess sem þeir fengu sviða í augun. Jöfnuðu þeir sig svo fljótlega. Var ekki ljóst hverjir hefðu staðið að baki eitruninni, en Úkraínumennirnir töldu að harðlínumenn í Moskvu hefðu viljað senda skilaboð til sín og trufla um leið viðræðurnar. „Þetta átti ekki að drepa, þetta var bara viðvörun,“ sagði Christo Grozev, rannsakandi hjá Bellingcat-hugveitunni, við blaðið, en hann kom einnig að rannsókn Bellingcat á eiturárásinni á Alexei Navalní árið 2020.

Abramovits mun hafa beitt sér fyrir því að liðka fyrir vopnahléi milli Rússa og Úkraínumanna, og sagði WSJ í síðustu viku að Selenskí hefði sérstaklega beðið Joe Biden Bandaríkjaforseta að hlífa honum tímabundið við fyrirhuguðum refsiaðgerðum Bandaríkjamanna, þar sem Abramovits gæti reynst gagnlegur við að binda enda á átökin.