Brot Keflvíkingurinn Darius Tarvydas sækir að körfu Grindvíkinga í Blue-höllinni í gær og Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson fylgist spenntur með.
Brot Keflvíkingurinn Darius Tarvydas sækir að körfu Grindvíkinga í Blue-höllinni í gær og Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson fylgist spenntur með. — Morgunblaðið/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltinn Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Keflavík endurheimti þriðja sæti úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, þegar liðið tók á móti Grindavík í Blue-höllinni í Keflavík í 21. umferð deildarinnar í gær.

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is Keflavík endurheimti þriðja sæti úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, þegar liðið tók á móti Grindavík í Blue-höllinni í Keflavík í 21. umferð deildarinnar í gær.

Mustapha Heron var stigahæstur Keflvíkinga með 24 stig og sjö fráköst en leiknum lauk með 78:70-sigri Keflavíkur.

Darius Tarvydas skoraði 14 stig fyrir Keflavík og tók átta fráköst en Kristinn Pálsson var stigahæstur Grindvíkinga með 21 stig.

Keflavík er með 28 stig í þriðja sætinu og þarf á sigri að halda gegn Njarðvík í lokaumferðinni í Keflavík til þess að tryggja sér heimavallaréttinn í úrslitakeppninni. Grindavík er með 22 stig í sjöunda sætinu og öruggt með sæti í úrslitakeppninni fyrir lokaumferðina.

*Þá er Njarðvík með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina eftir tap Þórs frá Þorlákshöfn gegn Tindastól í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn.

Leiknum lauk með 91:85-sigri Tindastóls en Javon Bess var stigahæstur í liði Tindastóls með 28 stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar.

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 15 stig fyrir Tindastól og tók fimm fráköst en Daniel Mortensen var stigahæstur Þórsara með 24 stig og átta fráköst.

Tindastóll er með 26 stig í fimmta sætinu og í harðri baráttu um heimavallarréttinn í úrslitakeppninni en liðið fær Þór frá Akureyri í heimsókn í lokaumferðinni.

Þórsarar, sem mæta Grindavík í Grindavík í lokaumferðinni, eru í öðru sætinu með 32 stig, líkt og Njarðvík, og verða að vinna til þess að eiga möguleika á deildarmeistaratitlinum en Njarðvík er með betri innbyrðisviðureign á Þórsara.

*Kristján Fannar Ingólfsson var stigahæstur Stjörnunnar þegar liðið vann öruggan sigur gegn Vestra í Mathúss Garðabæjar-höllinni í Garðabæ.

Kristján Fannar skoraði 20 stig og tók þrjú fráköst í leiknum sem lauk með 99:66-stórsigri Stjörnunnar.

Hilmar Smári Henningsson skoraði 16 stig fyrir Stjörnuna og gaf sjö stoðsendingar en Rubiera Alejandro var stigahæstur í liði Vestra með 16 stig og fjórar stoðsendingar.

Stjarnan er með 24 stig í sjötta sætinu og mætir Breiðabliki í Kópavoginum í lokaumferðinni.