Björg Erla Steingrímsdóttir fæddist í Reykjavík 29. nóvember 1936. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 19. mars 2022.

Foreldrar hennar voru Ingunn María Friðriksdóttir, f. 13. janúar 1915, og Steingrímur Sigurðsson, f. 21. maí 1915. Þau skildu. Systir Erlu er Sigrún Steingrímsdóttir, f. 27. febrúar 1938, d. 26. mars 21.

Systkini samfeðra eru: Magnea, Ingibjörn (látin), Sveinn Vernharð, Mónika Björg, Magnús Hannes og Edvin.

Erla giftist Pétri Þorvaldssyni 17. júní 1955, f. 17. janúar 1936, d. 1. október 1989.

Börn þeirra: 1) Viðar Pétursson, f. 5.7. 1954, kvæntur Rebekku Björk Þiðriksdóttur, f. 28.11. 1955. Börn þeirra eru a) Hjalti Viðarsson, maki Flora-Josephine Hagen Liste, börn þeirra Jenný Björk og Jakob Hrafn. b) Kári Viðarsson, börn hans Guðrún Ágústa og Erpur Snær. c) Ingibjörg Viðarsdóttir, maki Óli Ívarsson, börn þeirra Rebekka, Hjördís Lilja og Úlfur. Birkir Snær Axelsson er sonur Ingibjargar úr fyrra sambandi. d) Þiðrik Örn Viðarsson, maki Valgerður Hlín Kristmannsdóttir, börn þeirra Arney Hrund og Urður Eir. 2) Þorvaldur Pétursson, f. 2.7. 1959, kvæntur Fríðu Björgu Eðvarðsdóttur, f. 8.8. 1959, börn þeirra a) Yrsa Guðrún Þorvaldsdóttir, maki Kolbeinn Sveinbjarnarson, börn þeirra Erik Logi og Breki Þór. b) Lára Kristín Þorvaldsdóttir, maki Skorri Júlíusson, sonur þeirra er Hugi Jökull. c) Pétur Jökull Þorvaldsson, sambýliskona Ingibjörg Sigríður Ingvarsdóttir. 3) Inga Lára Pétursdóttir, f. 28.6. 1963, sambýliskona Regína Unnur Beck Margrétardóttir, f. 6.1. 1970, hún á tvo syni. Börn Ingu Láru og fyrri maka hennar, Markúsar Hálfdanarsonar, eru: a) Erla María Markúsdóttir, maki Viðar Berndsen, börn þeirra Bjarki og Hrafnkell. b) Pétur Dan Markússon. Fyrir á Markús synina Hrafnkel og Ólaf Örn. 4) Laufey Pétursdóttir, f. 29.7. 1971.

Erla fæddist á Ránargötu í Reykjavík þar sem hún bjó með móður sinni, Ingunni Friðriksdóttur, og móðurömmu. Jónínu Björgu Jónsdóttur, ásamt alsystur sinni Sigrúnu (Rúnu). Þær fluttu síðar á Grettisgötu 30C. Erla kynntist eiginmanni sínum ung að árum en þau gengu í hjónaband 17. júní 1955 áður en þau fóru utan til Kaupmannahafnar þar sem Pétur stundaði nám í sellóleik og vann síðar við Århus Byorkester.

Eftir að Erla og fjölskylda fluttust heim frá Danmörku bjuggu þau lengst af á Rauðlæk 40 í Reykjavík en stuttu eftir að Pétur lést flutti Erla í Eskihlíð 18A og bjó þar til dánardags.

Starfsferill Erlu var fjölbreyttur en að lokinni skólaskyldu hóf hún störf á Landakoti. Starfaði síðan við bókband og sem „stuepige“ á hefðarheimili í Kaupmannahöfn. Þegar fjölskyldan svo flutti aftur heim til Íslands eftir 10 ára dvöl í Danmörku starfaði Erla meðal annars í fataverslununum Herratízkunni og Iðu og síðar í verslununum Hamborg og Stellu. Hún starfaði síðan um fjögurra ára skeið á skrifstofu Nýja tónlistarskólans. Eftir það tók við annað tímabil í heilbrigðisgeiranum þegar hún starfaði í tvo áratugi á Borgarspítalanum og Landspítalanum. Auk þessa vann hún um skeið hjá Álafossi, Kassagerðinni, Opal og við veisluþjónustu.

Erla verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag, 29. mars 2022, klukkan 13.

„Viltu Hans og Grétu brjóstsykur, eða kannski kóngabrjóstsykur?“ Amma stendur í eldhúskróknum á Mæri og teygir sig í hilluna með brjóstsykurskrukkunum. Nammidagur eða ekki, amma Erla bauð alltaf upp á eitthvað gott. Meira að segja í bílferðum var boðið upp á bílanammi, oftar en ekki bílabrjóstsykur.

Hreinlæti og góð umgengni var líka ofarlega í huga ömmu og mun ég seint gleyma bílferðum í ömmubíl þar sem búið var að koma dagblöðum snyrtilega fyrir í aftursætinu til að tryggja að við barnabörnin myndum ekki bía út sætin. Amma kenndi mér líka hvernig á að brjóta saman buxur svo brotið sé rétt og var ekki lengi að grípa í hnökravélina ef ég kom í heimsókn í peysu sem var farin að hnökra.

Ég þykist muna þegar amma flutti í Eskihlíðina. Ég man að minnsta kosti eftir mörgum gæðastundum þar. Eins og þegar ég, Óli og Pétur vorum að gista og amma vildi að sjálfsögðu poppa þegar búið var að velja spólu í video-tækið. Ekki man ég af hverju amma ákvað að poppa í potti, mig minnir endilega að örbylgjuofn hafi verið í Eskihlíðinni, en ekki leið á löngu þar til popp fór að flæða úr pottinum og ekkert virtist ætla að stöðva poppbaunirnar. Amma greip til sinna ráða, náði í vaskafat og sturtaði poppinu ofan í. En það dugði ekki til, poppið hélt áfram að poppast. Amma hljóp þá inn á bað og náði í bala sem rúmaði restina af poppinu. Við hlógum okkur máttlaus og borðuðum popp í morgunmat daginn eftir. Sagan um popp í bala hefur verið rifjuð upp ófáum sinnum síðan.

Í seinni tíð hafa heimsóknirnar í Eskihlíð einkennst af góðum kaffisopa og spjalli. Eftir að ég byrjaði að drekka kaffi var svo dásamlegt að setjast í kaffikrókinn hjá ömmu og fá uppáhellingu. Og alltaf ljómaði amma þegar ég afþakkaði mjólk í kaffið. „Nú, svo þú drekkur alvörukaffi, eins og ég.“ Svo sátum við saman og drukkum rótsterkt ömmukaffi, og kannski eitt eða tvö Remi-kex með.

Elsku amma Erla. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa átt þig að svona lengi. Það er sannur heiður að heita í höfuðið á þér, við verðum alltaf nöfnur, um ókomna tíð. Takk fyrir alla hlýjuna sem þú veittir mér og strákunum mínum, þeir eru heppnir að hafa fengið að kynnast langömmu eins og þér.

Erla María Markúsdóttir

Erla tengdamóðir mín kvaddi þennan heim þann 19. mars friðsæl og falleg á hjúkrunarheimilinu í Borgarnesi umvafin sinni góðu fjölskyldu.

Jólin 1984 kom ég fyrst inn á heimili þeirra Péturs á Rauðalæk þegar við Þorvaldur (Daddi) hófum samband okkar. Hún tók mér opnum örmum og gaf mér strax hlutdeild í fjölskyldumynstrinu. Á heimilinu var Pétur húsbóndinn en hann gaf Erlu sinni rými og öryggi. Hann vissi að reglan og festan sem nauðsynleg er fyrir farsælu fjölskyldulífi kom að miklu leyti frá húsmóðurinni. Það leyndi sér ekki að hjónaband þeirra Péturs var byggt á ást og kærleik og þau samrýnd og hvort öðru háð, enda höfðu þau byrjað saman kornung. Þegar þau voru um 18 ára, þá nýbakaðir foreldrar með frumburðinn Viðar fengu þau leyfi forsetans, forsetabréf, til að gifta sig áður en leiðin lá til Danmerkur í nám.

Börnin fjögur voru öll óskabörn, Þorvaldur og Inga Lára bættust í fjölskylduna á Danmerkurárunum og Laufey sem gullfjárfesting þegar heim var komið.

Það var mikill missir þegar tengdapabbi féll frá eftir grimma glímu við krabbamein aðeins 53 ára. Erla missti stóru ástina sína, félaga og vin í lífi og starfi. Þau höfðu deilt öllu og mótast saman allt frá auralausum tíma námsáranna í aðeins betra líf tónlistarmannsins.

Heimilisbragurinn og notalegheitin á Rauðalæk og á Mæri er best lýst með því sem danskurinn segir „hygge“. Eftir öll búskaparárin í Danmörku leyndi sér ekki að það voru áhrif þaðan í mataruppskriftum og heimilishaldi. Á fyrstu árunum í Kaupmannahöfn vann Erla fyrir litlu fjölskyldunni sem „stuepige“ og vildi húsfreyjan gera allt til að halda henni í vinnu sem lengst, enda hef ég engan þekkt sem kunni jafnmörg góð húsráð og hélt speglum og gluggum jafn hreinum og fínum alla tíð. Hún hafði gaman af borðbúnaði og ósjaldan sá ég hana kíkja undir og skoða merki á fallegu bollapari eða vel formuðum diski.

Erla naut þess að ferðast og var meistari að pakka niður í ferðatösku. Þá var allt sem þurfti tekið með, en ekkert umfram sem hét óþarfi eða aukadót. Og allt átti sinn stað og sinn hlífðarpoka í ferðatöskunni.

Hún hafði gaman af bókum og alltaf hægt að fá meðmæli og umsögn um hvað væri góður kostur til að taka á bókasafninu.

Erla var mikill verkmaður, einstaklega skipulögð og vandvirk. Það voru engin verkefni sem henni voru ofviða og sama hvort það var flísalögn, gluggalökkun, bólstrun eða aðrar smáviðgerðir. Hún var vandvirk og úrræðagóð og hönnuður í verki. Og það segir margt um gæði handbragðs þegar ekki mátti sjá hvort væri fallegra, réttan eða rangan í prjónaskapnum.

Ég á henni margt að þakka en fyrst og fremst vil ég þakka henni fyrir að vera amma barnanna okkar Dadda. Hún kenndi þeim að það er mikilvægt að kunna að vera í félagsskap með sjálfum sér. „Það er hollt að láta sér leiðast,“ sagði hún og skömmu seinna voru þau týnd í skapandi leik á milli klettanna á Mæri með Mærisbrauð frá ömmu í nesti. Hún hefur komið á framfæri skýrum skilaboðum um mikilvægi þess að vera trúr sjálfum sér og ganga ekki á hlut annarra.

Á kveðjustund er þakklæti mér efst í huga fyrir að hafa fengið að njóta hennar samveru og kærleika öll þessi ár.

Fríða Björg Eðvarðsdóttir.

Nú hefur elsku Erla frænka kvatt okkur, í hugann kemur mynd af glæsilegri konu sem ég var fullviss um þegar ég var lítil að svona væru bara heimsvanar konur. Frænka hafði búið erlendis og talaði útlensku eins og þá var oft sagt en þessi útlenska var danska sem mér fannst agalega lekker eins og frænka hefði sagt. Frænka var úrræðagóð og flink í uppstillingu og það þótti nú flott að geta kallað á uppstillingardömu til að raða á veisluborðið, hún var líka myndarleg í höndunum og bæði saumaði og prjónaði mikið.

Þegar ég var lítil förum við Inga amma á Mæri til Erlu og Péturs í heimsókn yfir sumartímann og þar liðu dagarnir hratt hjá okkur Laufeyju í búrinu þar sem voru galdraðar fram kræsingar í drullukökum skreyttum með sóleyjum og fjólum. Þegar að háttatíma kom gerðist það stundum að ég fékk heimþrá og grét í koddann en Erla frænka læddist þá inn með töfradrykk úr búrinu sem læknaði magapínu og heimþrá. Þetta var nú bara venjuleg gosflaska en lengi trúði ég því að gosflöskur úr búrinu á Mæri hefðu lækningamátt og töfra.

Erla hafði yndi af lestri og ferðalögum sem hún fór ósjaldan í með Laufeyju og þær þvældust víða. Eitt skipti vorum við saman á Almeria þar sem þær systur mamma og Erla nutu sín vel og drógu fram hverja snilldarhönnunina af annarri enda sérlega handlagnar báðar tvær og sniðugar í alls kyns lausnum og frábærar í endurvinnslu löngu áður en við þekktum það orð; saumað utan um ferðakoddann úr viskustykkjum eða handklæðum, skópoki úr gömlum sundpoka og svo mætti lengi telja.

Elsku Erla frænka, það er ekki nema ár síðan mamma kvaddi, hún systa þín. Þú varst svo dugleg að koma til hennar eftir að hún fluttist á hjúkrunarheimili og tókst ekki annað í mál en að föstudagur væru þínar dagar, þá áttuð þið ykkar stundir og rifjuðuð upp gamlar og góðar minningar.

Ég kveð þig kæra frænka með kærleik og hlýju og ég veit að þú skilar knúsi á mömmu og pabba frá mér.

Þín

Margrét.

Nú er hún Erla vinkona okkar búin að kveðja. Við höfðum fregnað að á brattann væri að sækja hjá henni upp á síðkastið og langt orðið síðan hún gat hitt okkur.

Við vinkonurnar sem tilheyrum þremur kynslóðum kvenna í heilbrigðisþjónustu eigum langa sögu að baki eða hátt í þrjá áratugi. Sögusviðið tekur yfir þrjú sjúkrahús og sagan sjálf er í raun rammpólitísk og vörðuð ótal sameiningum og sundrunum. Rauði þráðurinn er þó konur sem tengjast vináttuböndum og láta utanaðkomandi ákvarðanir ekki koma í veg fyrir að hittast, hafa gaman og deila lífinu með sínum sorgum og sigrum hver með annarri.

Erla var elst okkar og langelst ef út í það er farið. Hún kemur til sögunnar eftir að hún missir Pétur eiginmann sinn allt of fljótt og hafði aldeilis önnur áform í lífinu en að fara að vinna á sjúkrahúsi. Er þá búin að koma fjórum börnum vel til manns og orðin amma. Sönn heimskona, búin að búa lengi erlendis og hafði ferðast um öll heimsins höf með Pétri sínum. Nýorðin ekkja með ýmiss konar atvinnureynslu í farteskinu fór hún að vinna á gamla Landakoti. Hún var öguð og skipulögð og fljót að vinna sig upp og vann lengst af sem deildarritari en það getur nú verið ansi hreint erilsamt starf og krefst þess að vera vel með á nótunum. Hún gat verið ákveðin og stíf á meiningunni og hikaði ekki við að segja okkur hinum til syndanna ef svo bar undir. Það var líka örugglega oft full þörf á því. Erla var mikil selskapskona, tók virkan þátt í starfi stéttarfélagins Sóknar og naut þess að ferðast með því sem og öðrum innan lands og utan.

Erla naut sín þó best í gestgjafahlutverkinu. Af öllu því sem við höfum brallað saman í gegnum tíðina eru heimsóknin til hennar að Mæri í Ölfusinu, griðastaðarins hennar fallega, og boðin í Eskihlíðina minnisstæðust. Hún var sannur höfðingi heim að sækja og fagurkeri fram í fingurgóma. Á Mæri hafði hún nostrað við öll smáatriði, smíðað og flísalagt. Það örlaði alltaf á dönskum áhrifum í stíl og framreiðslu og andrúmsloftið virðulegt.

Við vinkonur hennar sem lengst af vorum kenndar við A-3 á gamla Borgarspítalanum þökkum fyrir samfylgdina og vottum fólkinu hennar öllu sem hún var svo stolt af okkar innilegustu samúð.

Bergþóra, Bryndís,

Erla, Guðlaug, Guðrún,

Ingibjörg F., Ingibjörg J., Kolbrún, Kristín, Nína og Ragna Dóra.