Íslandsmet Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti kúluvarpsmetið rækilega um helgina og stefnir nú á að kasta sem oftast yfir 17 metra.
Íslandsmet Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti kúluvarpsmetið rækilega um helgina og stefnir nú á að kasta sem oftast yfir 17 metra. — Ljósmynd/Guðmundur Karl Sigurdórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsar Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.

Frjálsar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Frjálsíþróttakonan Erna Sóley Gunnarsdóttir stórbætti eigið Íslandsmet í kúluvarpi kvenna utanhúss þegar hún varpaði kúlunni 17,29 metra á Texas Relays-mótinu í Austin í Texas-ríki í Bandaríkjunum um helgina.

Fyrra met hennar var tæplega árs gamalt, en í maí á síðasta ári kastaði hún kúlunni 16,77 metra á svæðismeistaramóti C-USA. Bætti hún því eigið met um rétt rúmlega hálfan metra.

„Þetta er mjög góð tilfinning og eitthvað sem ég er búin að vera að stefna að lengi, að komast yfir 17 metrana. Það er bara frábært að komast loksins yfir þá,“ sagði Erna í samtali við Morgunblaðið. Hún kvaðst hafa bætt sig jafnt og þétt að undanförnu og sagði að þörf hefði verið á því að komast yfir 17 metra þröskuldinn, sem Erna hefur stefnt á undanfarið ár.

„Það er eiginlega búið að vera þannig hjá mér að þetta var svolítið eins og veggur, 17 metra markið. Ég er búin að vera alveg við 17 metrana á æfingum og mótum. Á innanhússtímabilinu var ég alltaf alveg við 17 metrana. En svo kemst maður yfir þetta og þá er veggurinn farinn. Það gerðist um helgina,“ útskýrði hún.

Fjöldi háskólamóta fram undan

Erna, sem er nýorðin 22 ára, á einnig Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss. Það setti hún á móti Birmingham í Alabama-ríki í Bandaríkjunum í febrúar á síðasta ári. Innanhússtímabilinu er nýlokið og er mótið í Austin því hennar fyrsta utanhúss á tímabilinu.

„Við vorum að klára innanhússtímabilið. Mótið sem ég keppti á um helgina var fyrsta utanhússmótið mitt á tímabilinu. Í framhaldinu verður bara keppt utanhúss.

Það er fullt af háskólamótum fram undan þar sem háskólatímabilið stendur núna yfir. Það verður alveg fram í byrjun júní, þegar háskólameistaramótið fer fram. Stóri fókusinn núna er á að ganga vel á þessum mótum, að ganga vel hérna í Bandaríkjunum,“ sagði Erna, sem keppir fyrir hönd Rice-háskólans í Houston í Texas.

Kasta vonandi oft yfir 17 metra

Spurð um markmið sín í framhaldinu sagði hún: „Í ár væri frábært fyrir mig að stefna á Evrópumeistaramót fullorðinna og ganga vel þar, það er svona stóra markmiðið.“ EM 2022 fer fram í München um miðjan ágúst næstkomandi og hefur Erna fulla trú á því að hún nái markmiðum sínum.

„Já algjörlega. Ég er búin að vera að vinna mikið í markmiðasetningu og eins og staðan er núna eru markmiðin að koma í ljós smám saman og ég er bara rosalega jákvæð yfir þessu öllu saman. Ég er alltaf frekar stöðug í svona svipuðum lengdum þannig að það er vonandi að ég geti kastað oft yfir 17 metrana í framhaldinu.“

Bestu 26 komast á EM

Hún hefur því nægan tíma til þess að ná lágmarkinu fyrir EM eða safna sér nógu mörgum stigum með því að ná góðum árangri á nægilega mörgum mótum til þess að vera sem efst á heimslistanum. „Já, lágmarkið á EM er 18,20 metrar en svo komast líka bestu 26 í Evrópu inn samkvæmt stigakerfinu. Ólympíulágmarkið í fyrra var 18,50 metrar en það voru ekkert allir að ná því til þess að komast inn.

Það voru margir aðeins yfir 18 metrum. Það er búið að hækka lágmörkin frekar mikið að undanförnu, sem er allt í lagi, en fólk hefur mest verið að komast inn í gegnum stigakerfið,“ sagði Erna einnig í samtali við Morgunblaðið og bætti því við að lokum að hún stefndi vitanlega ótrauð á að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í París sumarið 2024.