Þróunin Skýrsla McKinsey varpar ljósi á margt í heilbrigðiskerfinu.
Þróunin Skýrsla McKinsey varpar ljósi á margt í heilbrigðiskerfinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey, sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið, er lagt til að langtíma- og fyrsta stigs þjónusta, sem nú er veitt á Landspítala, verði færð yfir í hentugra þjónustuumhverfi til þess að sporna við aukinni aðfangaþörf Landspítala. Er þar fjallað um framtiðarþróun þjónustu spítalans.

Í skýrslunni kemur fram að heilbrigðiskerfið leiti til Landspítala til þess að fylla í eyður sem eru annars staðar í kerfinu og vanræki þá í leiðinni eigin skyldur, t.d. með því að leggja minni áherslu á læknisfræðilegar rannsóknir.

Nýr spítali ekki nóg

Þörf verður fyrir um 50% fleiri rými á Landspítala árið 2040 en áætlað er að verði í boði þegar nýr Landspítali verður opnaður á Hringbraut árið 2026. Gert er ráð fyrir að eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu muni aukast um 1% á ári hvað varðar komur á göngudeildir og um u.þ.b. 1,2% á ári hvað varðar legudeildir, einkum vegna lýðfræðilegra breytinga. Kemur fram í skýrslu McKinsey að vinnuaflsþörf muni aukast um 36% og kostnaður um 90%, verði ekki gripið til stórtækra aðgerða af hálfu Landspítala.

Þá er gert ráð fyrir að þörfin fyrir rými á Landspítala aukist um 80% árið 2040 frá því sem nú er.

Færa þarf þjónustuna annað

Ákveðnar lykilaðferðir geta vegið upp á móti þessari þróun; hægt væri að mæta um helningnum af hinni auknu þörf fyrir rými á legudeildum og aukinni umferð á komudeildir með því að færa langtíma- og fyrsta stigs þjónustu, sem nú er veitt á Landspítala, yfir í hentugra þjónustuumhverfi, sem myndi hafa í för með sér lægri kostnað og líklega meiri þjónustugæði. Til þess þyrfti að búa til það sem samsvarar um 240 rýmum í heimahjúkrunar-, öldrunar- og endurhæfingarþjónustu, svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess þyrfti skipulagt átak til þess að færa umönnunar- og fyrsta stigs þjónustu yfir á þjónustustofnanir utan Landspítala.

Nýting legurýma verulega mikil

Hægt væri að mæta um 23% af hinni auknu þörf fyrir rými og um 33% af væntri kostnaðarhækkun á Landspítala fram til ársins 2040 með því að ná viðmiðunarmörkum hagræðingar, sem eru um 1,3% á ársgrundvelli, með rekstrarumbótum og stafvæðingu. „Að ná þessari hagræðingu, áamt breytingum á langtímaumönnun sjúklinga, myndi færa nettóþörfina í um 760 rými árið 2040, eða litlu meira en þau 730 rými sem áætluð eru fyrir árið 2026,“ segir í skýrslunni.

Núverandi framleiðnistig spítalans er sambærilegt við önnur norræn sjúkrahús en nýting rýma er mikil, með 97% hlutfall og á sumum deildum yfir 100%, sem gefur til kynna álag sem er verulega yfir viðmiðum.