Skrítinn er þessi ákafi að leggja niður störf sem þeir þekkja með nafni

Ætla má af umtali nýrra frambjóðenda fyrir sérhverjar kosningar að lungi þeirra sé varfærinn og gætinn í fjármálalegum efnum og ætli sér að gera sem mest af því sem kemur kjósendum best fyrir sem minnst fé og helst fyrir ekkert nýtt fé. Enda ætti sífelld og stjórnlítil opinber eyðsla kynslóða genginna kjörinna fulltrúa, sem og hinna sem hafa ríkuleg völd en umboð í öfugu hlutfalli, að gefa ríkuleg tækifæri til að spara óþarfa og rýma fyrir gagnlegu og þörfu. En stundum sýnist „sparnaður“ helst festa tennur sínar í því, sem sparar minna en ekkert.

Stefán Vagn Stefánsson alþingismaður vakti athygli á slíku í ágætri grein hér í blaðinu. Þar segir hann m.a.: „Síðastliðna daga hefur sprottið upp umræða um fækkun sýslumannsembætta hér á landi. Talað er um að sameina ákveðin embætti í eitt og jafnvel að fækka sýslumönnum í einungis einn sýslumann, sem myndi hafa allt Ísland sem sitt umdæmi. Þetta er áhyggjuefni þar sem sýslumenn sinna veigamiklu hlutverki innan sinna umdæma. Þeir þjóna sínu nærsamfélagi í mikilvægum og persónulegum málum íbúa þess, hvort sem það eru þinglýsingar, gjaldþrot eða mikilvæg málefni fjölskyldna. Af þessu er augljóst að mikilvægi þess að sýslumenn séu innan handar er óumdeilt. Sýslumenn eru umboðsmenn hins opinbera í héraði. Ef þau áform sem búið er að boða yrðu að veruleika þá verður búið að eyða grundvallarhlutverki þeirra.

Haft er eftir formanni Félags sýslumanna að dómsmálaráðuneytið hafi fundað með sýslumönnum um málið og að efasemdir séu um ágæti þess innan þeirra raða. Skiljanlega, enda er nauðsynlegt að sýslumenn séu til staðar í nærumhverfinu og hafi einhverja tengingu við samfélagið. Með brotthvarfi þeirra úr umdæminu eyðist sú tenging, eðli málsins samkvæmt.“ Undir þessi orð þingmannsins má taka.

Nefnd „sparnaðarhugmynd“ minnir óneitanlega á aðra með drjúga sögu og gagnsemi. „Sýslumaðurinn“ sem slíkur er gamalkunnur í íslenskri löggjöf og sögu gegnum langa tíð. En „hreppstjórinn“ var þó enn eldri og elsta samfellda embættisheitið í sögu þjóðarinnar. En endilega þurfti þáverandi dómsmálaráðherra að losa þjóðina við meira en þúsund ára þekkt og virt hreppstjóraheiti, ekki löngu fyrir aldamótin 2000. Þegar sá mælti fyrir gjörð sinni var réttlætið það eitt, að með því myndu sparast 16 milljónir króna árlega. Síðan þá hafa útgjöld ríkisins belgst út sem aldrei fyrr, svo að „skitnar“ 16 milljónir sæjust varla nema í rafsmásjá. En ekki hefur borið á því að margir hafi haft af því teljandi áhyggjur, eins og þeir höfðu þegar söguríkustu embætti Ísland þvældust fyrir þeim forðum og aftur nú. Verkefnið var og er að flytja hluta verkefna sem nú belgjast út á einu horni landsins til þekktra starfsheita sem auðveldlega mætti treysta fyrir þeim.