Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Þekkingarsetur Vestmannaeyja hefur fengið rannsóknarleyfi til tilraunaveiða á allt að eitt þúsund tonnum af rauðátu á ári. Þess má geta að það er svipað magn og einn skíðishvalur étur á ári af rauðátu.
„Við ætlum í rannsóknir í sumar og skoða hvort þetta sé mögulegt. Við ætlum að vanda vel til verka og gera eins vel og við getum. Það verður ekkert úr veiðum á rauðátu nema rannsóknirnar komi vel út. Þetta er spennandi verkefni,“ sagði Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins.
Stefnt er að því að hefja rannsóknirnar í seinni hluta maí og stunda þær fram í fyrstu viku ágúst. Þekkingarsetrið hefur verið í samstarfi við Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðing hjá Hafrannsóknastofnun, og fleiri við undirbúninginn.
Rauðátusýni verða tekin í sérhannaða háfa. Annar rannsóknabátur Þekkingarsetursins, Friðrik Jesson VE 177, verður notaður við sýnatökuna. Hafrannsóknastofnun ætlar að lána viðeigandi rannsóknartæki og Háskóli Íslands á einnig búnað sem nýtist við rannsóknirnar.
„Það vill svo til að rauðátan er í mestum mæli hér við Vestmannaeyjar hvað varðar útbreiðslu við Ísland. Við erum með ákveðin veiðisvæði í huga. Þar ætlum við að kanna þéttleika rauðátunnar og hvort það sé heppilegt að veiða hana. Við erum alveg á byrjunarstigi,“ sagði Hörður. Hann segir að í rauðátu séu ýmis eftirsóknarverð og dýrmæt efni.
„Eitt eftirsóttasta efnið er astaxanthin sem til dæmis er notað í meðferð við sykursýki. Einnig er í rauðátu efni sem vinnur gegn offitu í fólki og fjölmörg önnur. Rauðátan verður komin að ævilokum þegar við ætlum að ná í hana. Hún lifir bara í eitt ár. Í sumar tökum við kannski fimm kíló í heildina,“ sagði Hörður. Í hverju kílói eru gríðarmörg dýr enda er hver rauðáta á stærð við hrísgrjón.
Markaðsverð á einu kílói af astaxanthin er 8-12 milljónir króna. Ellefu tonn af rauðátu þarf til að fá eitt kíló af því efni. Einnig verður leitað að fleiri eftirsóknarverðum og dýrmætum efnum sem hægt er að vinna úr rauðátu.