Ómar Már Jónsson
Ómar Már Jónsson
Eftir Ómar Má Jónsson: "Við þurfum að koma borginni úr þeirri ömurlegu stöðu að vera háð núverandi ástandi á fasteignamarkaðinum vegna slæmrar fjárhagsstöðu borgarsjóðs."

Við þurfum að vinda ofan af neyðarástandi á fasteignamarkaðinum í Reykjavík.

Það þarf að leita allra leiða til að ná tökum á þeirri húsnæðisstefnu sem íbúðamarkaðurinn í borginni býr við í dag. Við þurfum að koma borginni úr þeirri ömurlegu stöðu að vera háð núverandi ástandi vegna slæmrar fjárhagsstöðu borgarsjóðs. Eitt stærsta verkefni nýrrar borgarstjórnar á næsta kjörtímabili er að snúa við þeirri stöðu og um leið að setja íbúa og fyrirtæki í fyrsta sæti en ekki fjárhagsþörf borgarinnar.

Reykjavík býr við þá einstöku stöðu að eiga mikið land til uppbyggingar, eða um 17.500 hektara af óbyggðu landi sem nær frá sjávarmáli upp í 120 metra hæð. Ætla má að a.m.k. helmingur af því svæði henti vel til að byggja á, eru það um 8.500 hektarar.

Keldnaland er um 130 hektarar og þar er pláss fyrir um 15.000 manns. Sé það tiltæka landrými borgarinnar sem er óskipulagt borið saman við Keldnaland, þá á Reykjavíkurborg landrými til að tvöfalda íbúafjölda borgarinnar. Reykjavíkurborg skortir ekki landrými.

Það er ekki óeðlilegt að þétta byggð innan borgarmarkanna en það verður að gerast með skynsamlegum og yfirveguðum hætti og ekki þannig að fasteignamarkaðurinn sé lagður í rúst og ungu fólki gert ókleift að koma þaki yfir höfuðið á eigin forsendum.

Við þurfum því að stórauka áherslu á að byggja á dreifðari svæðum og skapa þannig eðlilegt ástand milli eftirspurnar og framboðs, bæði hjá þeim sem vilja kaupa fasteign og ekki síður hjá þeim sem kjósa að vera á leigumarkaði.

Til að snúa af þeirri verðhækkunarbraut sem nú ríkir þarf að byggja a.m.k. 10.000 íbúðir á næstu fimm árum. Það ætti að vega upp uppsafnaða þörf og koma til móts við áætlaða fólksfjölgun í Reykjavík.

Því til viðbótar má ætla að þegar við erum komin út úr Covid-ástandinu muni erlendir ferðamenn aftur koma inn á almenna leigumarkaðinn í styttri tíma leigu sem mun auka enn frekar þrýsting á hraðari uppbyggingu nýrra íbúðahverfa.

Hver hefur ávinning af núverandi ástandi á fasteignamarkaði?

Núverandi staða er er tilkomin vegna þess að eftirspurn eftir húsnæði er töluvert meiri en framboð sem hefur leitt til verulegs ójafnvægis.

Sú staða, að teknu tilliti til fjárhagsstöðu borgarsjóðs, hefur leitt til þess að borgin nærist á því að fasteignaverð hækki. Á sama tíma vinnur það gegn því að ungt fólk geti komið þaki yfir höfuðið eða leiðir til þess að það festist á leigumarkaði. Það er staðreynd að einungis 10% af þeim sem eru á leigumarkaði vilja vera á leigumarkaði. 90% leigutaka vilja eignast sitt eigið húsnæði.

Það er til lausn við öllum áskorunum

Ég mun beita mér fyrir því að hraða byggingu á brotnu landi og draga um leið úr ofuráherslu á þéttingu byggðar. Um leið verður að hraða uppbyggingu í Úlfarsársdal og Keldnalandi og víðar.

Ég mun leggja áherslu á uppbyggingu íbúðahverfa til að svara eftirspurn eftir einbýlishúsalóðum sem skortur er á og leggja áherslu á fjölbreytt íbúðasvæði.

Ég mun beita mér fyrir því að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði.

Jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði mun sjálfkrafa draga úr gegndarlausum verðhækkunum á fasteignamarkaði.

Það er mikilvægasta kjarabót til Reykvíkinga núna.

Höfundur er oddviti lista Miðflokksins til borgarstjórnar og fyrrverandi sveitarstjóri. omarjons@simnet.is

Höf.: Ómar Má Jónsson