Forseti Selenskí segist skilja hlutleysiskröfu.
Forseti Selenskí segist skilja hlutleysiskröfu. — AFP
Úkraínsk og rússnesk stjórnvöld munu hefja friðarviðræður að nýju í dag, þar sem sendinefndir þeirra mætast augliti til auglitis í Tyrklandi. Viðræðurnar hafa ekki farið fram með þeim hætti svo vikum skiptir.

Úkraínsk og rússnesk stjórnvöld munu hefja friðarviðræður að nýju í dag, þar sem sendinefndir þeirra mætast augliti til auglitis í Tyrklandi. Viðræðurnar hafa ekki farið fram með þeim hætti svo vikum skiptir. Volodimír Selenskí forseti Úkraínu sagði í gær að samningamenn væru að kynna sér kröfur Rússa um hlutleysi Úkraínu. „Þetta atriði í viðræðunum er skiljanlegt og það er verið að ræða það og rannsaka vandlega,“ sagði hann.

Úkraínskur embættismaður segir að í það minnsta fimm þúsund manns hafi látið lífið í Maríupol frá því innrás Rússa hófst fyrir rúmum mánuði. Utanríkisráðuneytið lýsir mannúðarástandinu í borginni sem „hörmulegu“.

Rússar hafi notað klasasprengjur

Úkraína hefur sannanir fyrir því að rússneskar hersveitir hafi notað bannaðar klasasprengjur í tveimur suðurhéruðum landsins, segir Írína Venediktóva ríkissaksóknari.

80.000 heimili í grennd við Kænugarð eru án rafmagns eftir árásir Rússa. „Óvinurinn er að reyna að brjótast í gegn um ganginn í kringum Kænugarð og loka flutningaleiðum,“ segir aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, Ganna Maljar. Úkraínsk stjórnvöld áætla að efnahagslegt tjón af innrásinni nemi nú tæpum 565 milljörðum bandaríkjadala.

6,9 milljarðar til aðstoðar Úkraínu

Bandarísk stjórnvöld ætla að verja 6,9 milljörðum dala til viðbótar til að hjálpa Úkraínu að verjast innrás Rússa og styðja ríki Atlantshafsbandalagsins. Verður nær einum milljarði dala varið „til að vinna gegn illkynja áhrifum Rússlands og til að mæta þörfum sem skapast í tengslum við öryggi, orku, netöryggismál, rangar upplýsingar, þjóðhagslegan stöðugleika og viðnámsþrótt borgaralegs samfélags“, sagði í tilkynningu Hvíta hússins. 13