Sviðsljós
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Minjastofnun úthlutaði á dögunum tæplega 67 milljónum króna úr fornminjasjóði til ýmiss konar fornleifarannsókna. Veittir styrkir voru 33 og fer tæpur helmingur þeirra til Fornleifastofnunar Íslands. Þetta eru ekki einu opinberu styrkirnir til rannsókna á munum og minjum fyrri alda því Alþingi veitir að auki í ár 10 milljónum króna til rannsókna á manngerðum hellum í Odda á Rangárvöllum og um 35 milljónum króna verður innan skamms úthlutað úr sjóði verkefnisins Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM) en drjúgur hluti fjárveitinga þaðan hefur undanfarin ár farið í fornleifarannsóknir á Þingeyrum, Odda og Staðarhóli í Dölum. Mun óhætt að segja að gróska sé í íslenskri fornleifafræði um þessar mundir og útlitið ágætt. Þannig auglýsti Fornleifastofnun fyrir stuttu eftir fornleifafræðingum til starfa í sumar með möguleika á frekari vinnu í kjölfarið næstu sumur eða til lengri tíma.
Fjárveitingar Minjastofnunar úr fornminjasjóði í ár eru verulega hærri en undanfarin ár. Frá 2019 til 2021 voru þær að jafnaði tæpar 42 milljónir króna á ári og styrkþegar 16 til 23. Umsækjendur sem ekki hljóta náð fyrir augum sjóðsins eru þó sem fyrr miklu fleiri, því samtals bárust 78 umsóknir í ár. En þrátt fyrir hækkunina eru styrkir Minjastofnunar til hvers verkefnis tiltölulega lágir og skapa því varla grundvöll til stórvirkja á sviði fornleifauppgrafta. Hæsti styrkurinn nemur 4 milljónum króna og rennur hann til fornleifaskráningar á eyðibyggð á ystu annesjum Þingeyjarsveitar. Tveir næsthæstu styrkirnir upp á 3,5 milljónir króna fara til áframhaldandi rannsókna á svonefndum Verbúðarhóli á Eyrarbakka og gamla bæjarhólnum í Árbæjarsafni.
Fornleifafræðistofan, sem Bjarni F. Einarsson rekur, fær 2,5 milljónir króna til uppgraftar á fornum skála á Stöð í Stöðvarfirði og 3 milljónir til uppgraftar á rústum bæjarins Arfabótar á Mýrdalssandi. Þetta virðast hafa verið stórbýli til forna og er markmið rannsóknarinnar m.a. að grafast fyrir um eðli og umfang búsetunnar og stöðu íbúanna.
Aðeins hluti styrkveitinga í ár snýr að beinum uppgraftarverkefnum. Þannig verður unnið að kortlagningu og mati á minjum í hættu í Grímsey, fornleifaskráningu í Hegranesi í Skagafirði, við Eyrarbakka og úr lofti í Þjórsárdal, könnun á ástandi fornra lauga víðs vegar um land, bænhúsaskráningu í Dalasýslu, rannsókn á forngripum frá uppgreftri á Stóruborg undir Eyjafjöllum fyrir nokkrum áratugum, sögu byggðar í Hrísey og áframhaldandi úrvinnslu og skýrslugerð vegna fornleifarannsóknar á Bessastöðum.
Fjórir styrkir Minjastofnunar renna til viðhalds gamalla báta. Fara 2,5 milljónir kr. til endurbyggingar vélbátsins Bryndísar sem smíðaður var til fiskveiða á Ísafirði 1939 og um 1,7 milljónir kr. til viðgerðar á vélbátnum Sumarliða sem upphaflega var smíðaður sem árabátur og notaður af ábúendum í Fagurey á Breiðafirði á síðustu áratugum 19. aldar. Til lagfæringa á áttæringnum Vigurbreiði frá Vigur í Ísfjarðardjúpi eru veittar 1,35 millj. kr. Sagt er að báturinn sé frá því um 1800. Hann hefur verið notaður til að flytja sauðfé milli lands og eyjar. Loks fær Byggðasafn Vestfjarða 900 þúsund krónur til viðhalds á vélbátnum Eljunni sem smíðaður var til fiskveiða árið 1942.