Grugg-áhrif Hlífar Örn Jakobsson, sem notar listamannsnafnið Heagle, var að stíga sín fyrstu skref með sína frumsömdu tónlist.
Grugg-áhrif Hlífar Örn Jakobsson, sem notar listamannsnafnið Heagle, var að stíga sín fyrstu skref með sína frumsömdu tónlist.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af tilraunum Ragnheiður Eiríksdóttir heidatrubador@gmail.com Það er gamalkunnugt stef að vorið komi með lóunni, en vorið kemur líka með Músíktilraunum og þar eru langoftast engin gamalkunnug stef sem heyra má.

Af tilraunum

Ragnheiður Eiríksdóttir

heidatrubador@gmail.com

Það er gamalkunnugt stef að vorið komi með lóunni, en vorið kemur líka með Músíktilraunum og þar eru langoftast engin gamalkunnug stef sem heyra má. Tilraunirnar stóðu undir nafni á öðru undanúrslitakvöldinu í ár sem fór fram í Hörpu sunnudagskvöldið 27. mars og fengu tilraunaglaðir ýmislegt fyrir sinn snúð. Músíktilraunir eru 40 ára í ár og þessi hljómsveita- og tónlistarkeppni er ein sú allra besta lyftistöng sem íslenskir tónlistarmenn hafa aðgang að. Í Músó eru tískustraumar eins og annars staðar og það er alltaf með ákveðinni tilhlökkun sem maður mætir til að komast að því hvað næsta kynslóð er að hlusta á og framkvæma og hvað kveikir neistann hjá þeim. Það er óhætt að segja að indí-tónlist af ýmsum toga sé fyrirferðarmest í ár en svo eru krókar og kimar og útúrdúrar sem gleðja og gefa.

Fyrsta hljómsveit kvöldsins var Bí Bí & Joð, sextett úr Reykjavík sem mætti eins og gleðisprengja á sviðið. Hljómsveitin skartar framúrskarandi söngkonu sem kann að beita rödd sinni bæði á lágum og blúsuðum tónum og uppi í hæstu hæðum. Tónlistin er einhvers konar söngleikjapopp en þó langt frá því að vera í stellingum því þau eru greinilega bæði að njóta þess að spila og ekki að taka sig of alvarlega. Sú blanda skilaði sér vel og bandið gjörsamlega átti salinn, útgeislunin og örugg framkoman sá til þess.

Það var skiljanlega örlítið stressaður trúbador sem kallaði sig Heagle sem var næstur; nánast hverjum sem er hefði þótt erfitt að taka við sviðinu af Bí Bí & Joð. Heagle heitir Hlífar Örn Jakobsson og er 22 ára og þótt hann hafi spilað á gítar með hléum síðan hann var 14 er hann að stíga sín fyrstu skref með sína frumsömdu tónlist undir þessu nafni. Síðara lagið var skemmtilegra og gætti smá grugg-áhrifa í því. Væri í raun gaman að heyra það bara með rokkhljómsveit því auðvitað er erfitt að koma svona frá sér með einn kassagítar að vopni.

Flea Market Sweater er tríó með alveg frábærlega og óræða blöndu af dróni, drunga, tilraunum og sækadelísku indípoppi. Fyrra lagið heillaði og dró mann inn og síðara lagið var með miklum áhrifum frá því tilraunakenndasta frá 7. og 8. áratugnum. Æðisleg syntasánd, bassasóló, æðislegt gítarsánd og skrúfjárn notað til að slæda á gítar var meðal þess sem fyrir augu og eyru bar. Tvímælalaust best hljómandi band kvöldsins og lagasmíðar þeirra eru framsæknar án þess að vera á nokkurn hátt tilgerðarlegar.

Gunni Karls, 16 ára frá Hafnarfirði, var síðastur á svið fyrir hlé og hann rappaði. Töluverður taugatitringur setti svip sinn á bæði lögin, og sérstaklega það síðara. Hann stóð sig þó með ágætum og gafst ekki upp þótt hann lenti í smá vandræðum.

Eftir hlé var komið að Merkúr frá Vestmannaeyjum sem voru að keppa í þriðja sinn. Þarna var komið þungt rokk per excellence og söngvari blandaði saman melódískum söng og kraftmiklum rokköskrum. Það var samt í síðara laginu sem allt small hjá þeim, sándið varð gífurlega þétt og leikgleði og grúf náði að geisla frá þeim. Með þeim sannaðist hve rétt herra Gunnar Lárus Hjálmarsson hafði fyrir sér þegar hann kvað: „Algjör þögn er best, en góður hávaði er góður líka!“

ÓHP, Ólafur Hálfdán Pálsson, kom einn fram með símann sinn og lék einhvers konar elektró-popp. Rödd hans er viðkvæmnisleg en samt mjög viðkunnanleg, en það vantar eitthvað upp á að þetta sé tilbúið hjá honum. Síðara lagið var til að mynda ósungið en hefði hljómað betur ef hann hefði verið búinn að vinna það lengra. Betur má ef duga skal.

Næst var komið að pönktríói úr Reykjavík skipuðu þremur 20 ára stúlkum sem kalla sig Sóðaskap. Þarna er um algjört frumpönk að ræða, með ádeilutextum og einföldum en ágengum sönglínum við enn einfaldari lög. Það þarf oft ekkert að finna upp hjólið ef hjólið er gott, og svo þarf líka að kunna að hjóla og skemmta sér við það og það gátu þessar glöðu og einbeittu pönkstelpur svo sannarlega. Bæði lögin voru flott en hið síðara skartaði svakalegum texta um gróðurhúsaáhrifin. Pönk með boðskap er einfaldlega alltaf skemmtilegt.

Að lokum heyrðum við svo í Purple9 sem er einhvers konar indí-poppdjass-kvartett úr Reykjavík. Hljómsveitin hefur starfað stutt og vantar kannski örlítið upp á þéttleikann en aðallega er sveitin enn þá leitandi. Þarna eru góðar hugmyndir en þær samræmast ekki allar. Fyrra lagið virtist daðra við djass en hið síðara var meira indí, með 12 strengja gítar og flottum röddunum.

Þegar úrslit voru tilkynnt var ljóst að salurinn hafði heillast af Bí Bí & Joð og kaus þau áfram en dómnefnd kaus áfram pönkarana í Sóðaskap. Á eftir svo fjölbreyttu kvöldi er ekki annað hægt en að svífa út með sátt í hjarta og sinni. Músíktilraunir hafa enn einu sinni gefið og glatt og halda því vonandi áfram um ókomin ár.