Í aðdraganda vináttulandsleiks Spánar og Íslands í fótbolta sem fram fer í La Coruna í kvöld hafa Spánverjar rifjað upp sigur Íslendinga á Englendingum í sextán liða úrslitum EM karla í Nice fyrir tæpum sex árum.
Í aðdraganda vináttulandsleiks Spánar og Íslands í fótbolta sem fram fer í La Coruna í kvöld hafa Spánverjar rifjað upp sigur Íslendinga á Englendingum í sextán liða úrslitum EM karla í Nice fyrir tæpum sex árum.

Væntanlega til þess að laða að áhorfendur en eins og staðan er akkúrat núna er ekki sjálfsagt að Spánverjar fylli leikvang í vináttulandsleik gegn Íslandi í marsmánuði.

Þeir hefðu þó átt að horfa aðeins lengra í baksýnisspeglinum og rifja upp þrjár síðustu heimsóknir sínar á Laugardalsvöllinn þar sem þeir náðu ekki einum einasta sigri.

Eini ósigur þeirra í tíu leikjum gegn Íslandi verður lengi í minnum hafður. Haustið 1991 gerði íslenska liðið sér lítið fyrir og vann það spænska 2:0 í Laugardal með mörkum Þorvaldar Örlygssonar og Eyjólfs Sverrissonar.

Ásgeir Elíasson heitinn stýrði landsliðinu í fyrsta sinn. Þetta var lokaleikur undankeppni EM og hann gjörbreytti liðinu. Setti reynda menn út og tók inn léttleikandi stráka, nokkra þeirra úr sínu félagi, Fram, sem olli nokkrum kurr fyrir leikinn.

En eftir leik voru allir kátir og Sigmundur Ó. Steinarsson fjallaði um hann í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Kveðjustund“ og sagði í greininni: „Þar var gamla kraftaknattspyrnan kvödd með glæsibrag. Leikurinn var gífurlegur sigur fyrir íslenska knattspyrnu og Ásgeir Elíasson, þjálfarann sem tók enn einu sinni áhættu og stóð uppi sem sigurvegari.“

Arnar Þór Viðarsson er að byggja upp nýtt lið eins og Ásgeir haustið 1991. Skyldi þessi Spánarleikur verða eins eftirminnilegur áfangi?