Flóð Svo mikið hækkaði í Skorradalsvatni að það flæddi yfir stíflu Andakílsárvirkjunar við enda vatnsins. Myndin var tekin á sunnudag.
Flóð Svo mikið hækkaði í Skorradalsvatni að það flæddi yfir stíflu Andakílsárvirkjunar við enda vatnsins. Myndin var tekin á sunnudag. — Ljósmynd/Pétur Davíðsson
Mikið vatnsflóð var úr Skorradalsvatni og um Andakílsá í rigningu og leysingum um helgina og rann vatnið yfir stífluna við enda vatnsins.

Mikið vatnsflóð var úr Skorradalsvatni og um Andakílsá í rigningu og leysingum um helgina og rann vatnið yfir stífluna við enda vatnsins. Landeigendur hafa verið óánægðir með stýringu Orku náttúrunnar (ON) á vatnsmiðlun úr vatninu til Andakílsárvirkjunar. ON segir að fresta hefði mátt hækkun vatnsborðsins um sex klukkustundir, ef allar lokur hefðu verið opnaðar fyrr. Svar fyrirtækisins bendir til að flóð hefði eigi að síður orðið yfir stífluna en staðið í styttri tíma en raun varð á.

Pétur Davíðsson, bóndi á Grund, gagnrýndi Orku náttúrunnar í frétt í Morgunblaðinu fyrir helgi fyrir að draga það að opna fyrir lokur í stíflunni til að búa vatnið undir fyrirsjáanlegar rigningar og leysingar. Raunin varð sú að eitt mesta vatnsflóð í mörg ár kom úr Skorradalsvatni og fór yfir stífluna og um Andakílsá. Pétur segir að ef fyrr hefði verið gripið til aðgerða hefði aðalflóðið orðið minna og dreifst á lengri tíma. „Það var engin fyrirhyggja í gangi,“ segir Pétur.

Sjálfstýring tekin af

Í svari Orku náttúrunnar vegna fyrirspurnar Morgunblaðsins kemur fram að ON fylgist með veðurspám og nýtir í innstreymislíkan sem Veðurstofan hefur útbúið fyrir Andakílsárvirkjun. Virkjunin sé alla jafna keyrð á sjálfstýringu en þegar spáð er auknu innstreymi sé gripið inn í og lokur opnaðar líkt og gert var síðastliðinn miðvikudagsmorgun. Pétur hefur raunar bent á að veðurspáin hafi sýnt í hvað stefndi þegar á mánudag.

Í svari ON segir að á föstudagsmorgni hafi komið í ljós að innstreymi yrði það mikið að nauðsynlegt væri að opna svokallaða flipaloku, til viðbótar við aðrar lokur. Allar lokur hafi verið opnar frá því á föstudagsmorgni og voru enn síðdegis í gær. Tekið er fram í svarinu að þegar svo mikið innstreymi er í vatnið sé erfitt að ráða við það og því hafi hækkað mikið í vatninu líkt og í flestum ám og vötnum á svæðinu.

Þegar spurt er um fyrirkomulagið svarar ON: Lokubúnaður í stíflunni við Skorradalsvatn er í línulegu sambandi við vatnshæð og þegar lítið er í vatninu afgreiðir hann minna rennsli en afgreiðir það hraðar eftir því sem hærra er í vatninu og meiri vatnsþrýstingur. Samkvæmt útreikningum hefði mátt fresta hækkuninni um u.þ.b. sex klukkustundir ef allar lokur hefðu verið opnaðar fyrr og vatnið lækkað í lágmarkshæð. Sömu vatnshæð hefði verið náð en þó í styttri tíma en raunin varð.

Hugsanlegar skemmdir á bökkum og lífríki verða ekki ljósar fyrr en aftur sjatnar í vatninu. helgi@mbl.is