Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Hlýindi og rigningar að undanförnu hafa skilað sér í Þórisvatn, sem sér virkjunum á Þjórsársvæðinu fyrir vatni. Samkvæmt vöktun Landsvirkjunar hefur yfirborð Þórisvatns hækkað um tæpa 50 sentimetra undanfarna 10 daga.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Hlýindi og rigningar að undanförnu hafa skilað sér í Þórisvatn, sem sér virkjunum á Þjórsársvæðinu fyrir vatni. Samkvæmt vöktun Landsvirkjunar hefur yfirborð Þórisvatns hækkað um tæpa 50 sentimetra undanfarna 10 daga. Í vetur lækkaði það um einn metra í viku hverri.

Yfirborð Þórisvatns stendur nú í 562,8 metrum yfir sjávarmáli. Þetta er langt undir meðaltalinu á þessum árstíma, sem er 571,5 metrar.

Skerðingar verða áfram

„Hlýtt veður hjálpar vissulega til, en þær leysingar sem núna hafa t.d. skilað meira vatni í Þórisvatn eru þó töluvert fjarri því að koma okkur fyrir vind,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

„Lóan er vissulega komin, en hún boðar ekki endilega vorkomu hjá okkur. Þessi hlýindi og úrkoma undanfarið hafa sannarlega bætt stöðuna, til dæmis nógu mikið til að við getum a.m.k. frestað endurkaupum sem áætlað var að ráðast í. Hins vegar breytir þetta engu um núverandi skerðingar, þær munu því miður standa eitthvað áfram. Við höldum áfram að vonast eftir hlýju og blautu vori, svo staðan batni sem allra fyrst,“ bætir Ragnhildur við. Hún segir aðspurð að endurkaup raforku frestist enn um sinn og framhaldið ráðist á næstu vikum.

Yfirstandandi vatnsár er eitt hið erfiðasta í sögu Landsvirkjunar, upplýsti fyrirtækið fyrr í þessum mánuði. Hefur ástandið ekki verið jafn slæmt á Þjórsársvæðinu síðan veturinn 2013-2014, þegar afhending raforku til stórnotenda með sveigjanlega raforkusamninga var síðast takmörkuð.

Þurrkar síðasta sumar og haust gerðu að verkum að Þórisvatn fylltist ekki, en það er mikilvægasta miðlunarlónið á stærsta vinnslusvæði fyrirtækisins. Þrátt fyrir að margar lægðir hafi gengið yfir landið í febrúar voru þær kaldar og fluttu með sér snjó, en ekki regn, svo enginn vetrarbloti kom inn á hálendið. Landsvirkjun segir að sá snjór muni vissulega skila sér í lónin áður en yfir lýkur, en hjálpi ekki í núverandi stöðu.

Brugðist við versnandi stöðu

Landsvirkjun tilkynnti í desember síðastliðnum að fyrirtækið hefði þurft að grípa til skerðinga í samræmi við ákvæði samninga við fiskmjölsverksmiðjur, stórnotendur og fjarvarmaveitur. Samtals námu þær skerðingar um 3% af árlegri orkuvinnslu fyrirtækisins. Landsvirkjun hefur gripið til ýmissa annarra ráða til að bregðast við versnandi stöðu, þ.ám. að falast eftir endurkaupum raforku af öllum stórnotendum og virkja ákvæði um slík endurkaup þar sem þau er að finna í samningum.

Verulega var dregið úr framleiðslu kísilmálmverksmiðju Elkem á Gundartanga fyrr í mánuðinum, því slökkva þurfti á einum ljósbogaofni, þeim stærsta af þremur. Ástæðan var skerðing Landsvirkjunar á afhendingu rafmagns.

Ástandið í öðrum lónum Landsvirkjunar, Hálslóni og Blöndulóni, er betra. Yfirborð þeirra hefur ekki lækkað undanfarna daga.