Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi hafa aldrei verið fleiri en undanfarin tvö ár samanborið við árin sex þar á undan. Þetta kemur fram í skýrslu embættis ríkislögreglustjóra. Þar má sjá helstu tölur varðandi heimilisofbeldismál og ágreiningsmál milli skyldra eða tengdra einstaklinga sem koma á borð lögreglu. Ríkislögreglustjóri ætlar að birta uppfærða tölfræði um heimilisofbeldi ársfjórðungslega og tölur um manndráp árlega.
Þriðjungi fleiri heimilisofbeldismál voru tilkynnt árið 2021 en árið 2015. Þolendur í öllum heimilisofbeldismálum, það er ofbeldi í nánum samböndum og ofbeldi af hendi aðila sem tengjast fjölskylduböndum, eru í um 70% tilvika kvenkyns og um 80% gerenda eru karlkyns. Sé eingöngu litið til ofbeldis maka/fyrrverandi maka, má sjá að hærra hlutfall þolenda er konur, eða 75-80%, en gerendur eru í 80-83% tilvika karlar.
Ágreiningsmál voru um eitt þúsund talsins árið 2014 og einnig á tímabilinu 2018-2021. Þau voru færri árin 2015 og 2016 þegar þau voru 850-900 talsins.
Heimilisofbeldi og ágreiningur
„Í verklagsreglum lögreglu er heimilisofbeldi skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi einhvers nákomins. Með öðrum orðum eru gerandi og þolandi skyldir eða tengdir og háttsemin felur í sér brot sem beinist gegn þolanda, t.d. ofbeldi, hótun eða eignaspjöll,“ segir í tilkynningunni. Til nánari útskýringar segir lögreglan að heimilisofbeldi standi aldrei eitt og sér. Það skuli ávallt vera tengt ákvæðum barnaverndarlaga eða almennra hegningarlaga, t.d. líkamsárás, hótun eða kynferðisbroti í skráningu.„Hins vegar eru tilvik skráð sem ágreiningur milli skyldra og tengdra þegar ekki leikur grunur á broti sem beinist að þolanda. Í lok árs 2014 voru verklagsreglur lögreglu um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála uppfærðar, sem leiddi til mun markvissari skráningar og skýrist mikill munur milli áranna 2014 og 2015 (um 370 tilvik) af þessari breytingu,“ segir í tilkynningunni. Til nánari útskýringar segir lögreglan að þegar hún er kölluð á vettvang þar sem ágreiningur er á milli skyldra og tengdra, en ekki er grunur um þau brot sem falla undir heimilisofbeldi, þá séu málin skráð undir verkefnaflokkinn „ágreiningur milli skyldra/tengdra“ í málaskrá.
Nýrri grein (218b) var bætt í almenn hegningarlög 2016 og nær hún yfir endurtekin eða alvarleg brot þar sem tengsl eru á milli geranda og þolanda. Brot gegn þessari grein voru 48 árið 2016 og urðu flest 100 á hvoru áranna 2019 og 2020 en voru 89 árið 2021.
Fjölskyldutengsl eða náin tengsl milli gerenda og þolenda voru í rúmum helmingi manndrápsmála á árunum 2010-2020. „...ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka getur stigmagnast eftir því sem tíminn líður og í slíkum aðstæðum getur í einhverjum tilvikum mannslíf verið í húfi,“ segir í tilkynningunni.