[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Nínu Þorkelsdóttur. Benedikt, 2021. Kilja, 57 bls.

Við erum á þeim stað í sögu mannkynsins þar sem vísindin segja okkur að við stefnum á endalokin. Sjálft loftslagið er komið að þolmörkum. Hvert liggur leiðin þá? Um þetta og margt fleira fjallar Lofttæmi , fyrsta ljóðabók Nínu Þorkelsdóttur.

Verkinu er skipt upp í þrjá hluta sem hafa hver sín sérkenni en eiga þó í miklu samtali og mynda eina heild. Þessi uppsetning er nokkuð algeng í þeim ljóðabókum sem koma út um þessar mundir en hér virkar hún mjög vel. Nína gerir engar sérstakar fimleikaæfingar með formið heldur leyfir frekar efniviðnum að vera í aðalhlutverki.

Eftirfarandi línur af fyrstu síðu verksins setja tóninn fyrir það sem koma skal.

hlutir sem rísa og falla

eru áhugaverðastir

eins og Rómaveldi

og lungu (9)

Nína skrifar um okkur mennina sem lífverur og sem menningarsamfélag. Þessar línur eru gott dæmi um hvernig hún teflir þessu tvennu saman. Og við fylgjum risi og falli mannkynsins, risi og falli menningarinnar. Þá vinnur Nína með hið klassíska minni: „af jörðu ertu komin, að jörðu skaltu aftur verða“.

Í fyrsta hlutanum, sem nefnist „Skriðdýr“, förum við aftur í tíma og skoðum forvera mannsins. Það má vel segja að verkið sé byggt upp sem ákveðin þróunarsaga. Tíminn leikur stórt hlutverk og dregur ljóðskáldið upp ýmsar myndir sem tengjast honum. Skáldið leiðir okkur aftur í tímann, í gegnum jarðlögin, til þess tíma þegar lífverurnar lærðu að draga andann.

Það leiðir okkur að næsta kafla, kaflanum sem nefnist „Hljómsveitarstjóri dregur andann“. Þar verður tónlistin eins konar fulltrúi siðmenningarinnar.

ég hef tónsprotann á loft:

fjórða Mahler

handahreyfingar sellistanna

eru samhæfð sundfimi (26)

Andardrátturinn fær mikið rými í textanum og Nína dregur skýrt fram samband hljóðs og lofts. Vísindin, annað fyrirbæri sem fylgir manninum og menningunni, fá líka sitt pláss í textanum.

Tengingarnar við fyrsta hlutann eru skýrar, það er enn eitthvað náttúrulegt á sveimi og ljóðmælandinn minnir okkur stöðugt á upphafið í moldinni og mögulega endastöð okkar þar.

Þriðji hlutinn nefnist hólmlenda og bara það orð, hólmlenda, segir okkur að þar er eitthvað jarðbundið á ferð og það er einmitt afturhvarf okkar ofan í jarðlögin sem blasir við lesendum á síðustu síðum bókarinnar. Reykvíkingar segja skilið við fyrra líf og setjast að í hólminum í Tjörninni. Vegferðin sem hófst í fyrsta kafla er komin að ákveðinni endastöð en þó verður ekki sagt að það ríki neitt vonleysi yfir síðustu ljóðunum. Þetta er heimsendaverk en heimsendirinn er að mörgu leyti mjúk lending, við skríðum ofan í hlýja moldina og hver veit hvað gerist þegar þangað er komið.

Lofftæmi er afar vel heppnuð frumraun. Það er ekki þannig að hver einasta ljóðlína eða hver einasta mynd sem dregin er upp sé vel heppnuð en heildarmyndin er stórgóð og tengingarnar sem verða til gefa lesandanum færi á að velta samhengi hlutanna, bæði þeirra stóru og þeirra smáu, fyrir sér.

Nína hefur valið nokkur skýr þemu sem hún teflir fram af öryggi og blandar saman af kostgæfni. Verkið er einfalt og aðgengilegt en það þýðir þó ekki að það skorti dýpt. Höfundurinn kannar rými mennskunnar, menninguna og söguna, og veltir fyrir sér hvað framtíðin ber í skauti sér. Verða það örlög okkar að finna á ný samastað í lofttæminu?

Ragnheiður Birgisdóttir

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir