Framganga Neytendastofu vekur óþægilega tilfinningu um að jafnræðisreglan hafi verið sett til hliðar

Opinberar stofnanir eiga að fara varlega með vald sitt og passa upp á að gætt sé jafnræðis í ákvörðunum þeirra.

Neytendastofa hefur nú í tvígang lagt óvenjuþungar sektir á sama fyrirtækið. Eru þær með allra hæstu sektum í sögu stofnunarinnar.

Um er að ræða teppafyrirtækið Cromwell Rugs, sem undanfarið hefur selt hér persneskar mottur. Í október í fyrra var fyrirtækið sektað um þrjár milljónir króna og í þessari viku um eina milljón króna.

Á viðskiptasíðu Morgunblaðsins í gær birtist listi yfir sektir Neytendastofu á árunum 2020 til 2022. Flestar eru sektirnar upp á 50 þúsund krónur. Aðeins einu sinni fór upphæðin yfir milljón. Fyrirtækið BPO Innheimta var sektað um 1,5 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd neytendamála úrskurðaði síðar að sú sekt skyldi lækkuð í hálfa milljón króna.

Fyrirtækið Cromwell Rugs hefur vakið mikla athygli með áberandi auglýsingum. Lögmaður fyrirtækisins segir að eigandi þess, Alan Talib, eigi erfitt með að skilja að oft ákveði Neytendastofa að leggja ekki á neinar sektir þótt mál snúist um mikilsverðari hagsmuni neytenda og jafnvel skaðlega háttsemi og þegar sektir séu lagðar á séu þær margfalt lægri en Cromwell Rugs þurfi að þola. Upplifun Talibs sé að hann fái ekki sömu meðferð og önnur fyrirtæki á Íslandi.

Það er ekki að furða að Talib skuli fá það á tilfinninguna að hann sé tekinn öðrum tökum en önnur fyrirtæki. Ekki er nóg með að Talib fái margfalt hærri sektir en aðrir, heldur var mál hans sett í sérstaka flýtimeðferð og afgreitt með margfalt meiri hraða en önnur mál.

Framganga Neytendastofu gagnvart teppasalanum Alan Talib vekur óþægilega tilfinningu um að jafnræðisreglan hafi verið sett til hliðar.