Hæstiréttur Biden óskar hér Jackson til hamingju með embættið.
Hæstiréttur Biden óskar hér Jackson til hamingju með embættið. — AFP/Mandel Ngan
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í fyrrakvöld með 53 atkvæðum gegn 47 að staðfesta útnefningu dómarans Ketanji Brown Jackson í Hæstarétt Bandaríkjanna. Hún verður fyrsta blökkukonan til að sitja sem dómari í réttinum.

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í fyrrakvöld með 53 atkvæðum gegn 47 að staðfesta útnefningu dómarans Ketanji Brown Jackson í Hæstarétt Bandaríkjanna. Hún verður fyrsta blökkukonan til að sitja sem dómari í réttinum.

Jackson er 51 árs gömul, en staðfesting öldungadeildarinnar þýðir að hvítir karlmenn verða ekki í meirihluta dómara í fyrsta sinn í sögu réttarins. Þá verða nú fjórar konur í Hæstarétti Bandaríkjanna af níu dómurum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í fyrradag að þetta væri söguleg stund í sögu Bandaríkjanna, en hann og Kamala Harris varaforseti tóku á móti Jackson í Hvíta húsinu í gær til að óska henni til hamingju með áfangann.

Þrír repúblikanar greiddu atkvæði með útnefningu Jackson, þau Mitt Romney, Susan Collins og Lisa Murkowski, en yfirheyrslur dómsmálanefndar deildarinnar yfir Jackson þóttu vera með harðara yfirbragði en fyrri slíkar.

Þannig spurðu repúblikanar í nefndinni mjög út í feril Jackson sem verjandi, en hún tók meðal annars að sér mál fyrir fanga í Guantanamo-fangelsinu. Jackson þykir þó að mörgu leyti nær repúblikönum en margir aðrir dómarar úr röðum demókrata þegar kemur að túlkun stjórnarskrár Bandaríkjanna.

Jackson er skipuð í staðinn fyrir Stephen Breyer, sem Bill Clinton útnefndi í réttinn árið 1994. Hún mun því ekki hafa nein áhrif á valdajafnvægið í Hæstarétti, en hægrimenn hafa þar nú sex dómara af níu.