Soffía Ingadóttir fæddist á Vaðnesi í Grímsnesi 6. maí 1932. Hún andaðist á Hjúkrunarheimilinu Eir 10. mars 2022.
Foreldrar hennar voru hjónin Ingi Gunnlaugsson frá Kiðjabergi og Ingibjörg Ástrós Jónsdóttir frá Álfhólum. Soffía var yngst fjögurra systkina, en eldri bræður hennar voru Sigurður, Gunnlaugur og Sigurjón.
Hún ólst upp í Vaðnesi en fluttist til Reykjavíkur ásamt fjölskyldunni árið 1945. Bjuggu þau fyrst í Barmahlíð 30 en frá 1952 á Grettisgötu 96 þar sem Soffía bjó næsta aldarfjórðunginn.
Hún stundaði nám við Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1952. Það ár var Soffía ráðin til Hagstofu Íslands og starfaði þar óslitið alla starfsævina, allt til 76 ára aldurs, eða í rúmlega hálfa öld. Hún var skipuð deildarstjóri Þjóðskrár árið 1978, en lengst af starfstíma hennar var Klemens Tryggvason hagstofustjóri. Soffía giftist Tryggva Árnasyni árið 1974 og saman byggðu þau húsið Álfabrekku 13 í Kópavogi og fluttu þangað árið 1978. Einkasonur Soffíu og kjörsonur Tryggva er Smári Helgason, fæddur 1961, en hann á tvær dætur, Soffíu og Evu Lind.
Árið 1990 reistu Soffía og Tryggvi snoturt sumarhús í Hestlandi þar sem þau undu sér vel við útivist og trjárækt. Eftir 20 ára búskap í Álfabrekkunni fluttu þau í íbúð við Sóltún þar sem þau undu hag sínum vel í ellinni.
Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Elsku amma mín, þá er komið að þessu. Kveðjustundin runnin upp.
Frá því ég man eftir mér hefur það farið í gegnum huga mér hvernig nákvæmlega ég færi að því að kveðja þig. Hvernig kveður maður manneskju sem hefur aldrei hugað að neinu öðru en þínu öryggi og þínum hagsmunum? Hvernig kveður maður manneskju hverrar lífsmarkmið var að varðveita þína hamingju?
Pabbi hafði orð á því hvað það væri dýrmætt fyrir okkur hvað amma var tilbúin, það var aldrei nein feimni þegar kom að því að tala um dauðann. Hún sagði okkur nákvæmlega hvernig hún vildi hafa hlutina, að ógleymdum húmornum sem fylgdi þeim frásögnum. Hún vildi að við minntumst hennar eins og fallegu og sterku konunnar sem hún var. Það er held ég nákvæmlega hvað hennar seinasti dagur sýndi okkur, mig langar að segja aðeins frá deginum.
Dagurinn var uppfullur af tilviljunum. Ég og Gyða besta vinkona mín og skáömmubarnið hennar ömmu kom með mér til hennar þennan dag. Við vorum að fara út að borða og sögðum ömmu það þegar við kvöddum hana en hún ríghélt í okkur eins og hún væri ekki tilbúin að við færum strax svo að við flissuðum og gáfum ömmu auka knús og koss.
Þegar við erum komnar út að borða þá leið okkur báðum svo furðulega, vorum utan við okkur og leið ekki alveg nógu vel. Við ákváðum því að fara snemma og ætluðum að nýta tækifærið og kíkja aðeins til ömmu og afa fyrir nóttina.
Þegar þangað var komið varð okkur ljóst að amma hafi kvatt aðeins fimm mínútum áður en við komum. Ekki var búið að ná í pabba þar sem hann var á Oddfellowfundi.
Auðvitað var þetta svolítið áfall en þegar ég fór að hugsa þetta eftir á þá held ég að þetta hafi verið nákvæmlega eins og amma vildi hafa það.
Það hafði aldrei verið eins mikill gestagangur og þennan dag, ótal margir sem komu og vottuðu henni þakklæti sitt. Við pabbi vorum bæði upptekin af öðru á meðan hún kvaddi og mættum svo saman uppstríluð, grátandi og hlæjandi yfir þessu öllu saman. Þegar ég kom heim eftir þetta allt saman sá ég í símanum mínum myndband af mér og ömmu frá því á jólunum 2021. Þar sá ég að ég var í þeim sama kjól og daginn sem hún fór. Ég tók þessu sem merki frá henni um að ég ætti að muna eftir henni nákvæmlega eins og seinustu jólin okkar saman, þar sem við sátum í faðmlögum og hlátrasköllin ómuðu.
Ég gæti ekki verið þakklátari, stoltari og glaðari yfir að þér hafi tekist ætlunarverkið elsku amma mín, þú skilur við mig þar sem ég er hamingjusöm, örugg og á bjarta framtíð fram undan með manni sem ég elska. Þér til heiðurs amma þá ætla ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja að framtíðin haldi áfram að veita mér hamingju.
Takk fyrir allt saman amma, sitji guðs englar saman í hring, sænginni yfir minni.
Eva Lind Smáradóttir.
Það var ætíð mikil ánægja að hitta þessa elskulegu frænku okkar, spjalla um gamla tíma og kannski skála ögn í líkjör eða drekka kaffi saman. Soffía föðursystir okkar systkina hefur verið sterkur hlekkur í lífi okkar frá barnæsku, hún var yngst sinna systkina og var rétt rúmlega tvítug þegar við tvíburabræður fæddust og bjó hún þá með foreldrum sínum í sama húsi. Ótal ljósmyndir af okkur systkinum eru allar henni að þakka, en við systkinin fæddumst hvert á fætur öðru og urðum sex alls.
Pabbi og Soffa voru miklir vinir, hann mat hana mikils og alltaf var hlýr og angurvær tónn í rödd hans þegar hann minntist á Soffu systur sína. Enda áttu þeir bræðurnir þrír, hann, Sigurður og Sigurjón, sem allir eru látnir, systur sinni mikið að þakka.
Öll sín fullorðinsár bjó hún foreldrum þeirra hlýtt heimili á Grettisgötu 96 og hjúkraði þeim þegar elli kerling sótti að þeim, ömmu Ingibjörgu í mörg ár eftir að afi Ingi féll frá árið '73. Sú alúð, hlýja og kærleikur verður seint fullþakkaður, þar óx líka úr grasi einkabarn Soffu, frændinn okkar góði hann Smári, sem aftur í elli hennar sjálfrar var hin styrka stoð og lífsins gleði. Og hann gaf henni síðar ömmuhlutverkið með tveimur dætrum og amman var sem fyrr óþreytandi við að aðstoða þær sem hún gat.
Á miðjum aldri hitti Soffa traustan lífsförunaut af Austfjörðum, glaðværan og góðan hestamann og þau Tryggvi áttu saman um 50 friðsæl ár. Byggðu sér fallegt einbýlishús í Kópavogi, keyptu sér á efri árum fallega íbúð við Sóltún en hina síðustu daga áttu þau saman á hjúkrunarheimilinu Eir. Þar syrgir elsku Tryggvi hina trúföstu Soffíu sína sem hugsaði um hann af nærgætni og endalausri fórnfýsi lengur en hún hafði sjálf krafta til.
Soffa frænka var Verslunarskólagengin og vann allan sinn starfsaldur á Hagstofunni við að skrá alla nýja Íslendinga, lengi vel með sinni fögru rithönd inn í bækur stofnunarinnar, seinna tók tæknin við. Átti hún þar góða starfsfélaga og ævilanga vini, eins og Gunnu vinkonu sína.
Enga manneskju höfum við vitað á langri leið eins hógværa, þakkláta og kærleiksríka og elsku frænku okkar sem við kveðjum hér. Eins og hún hefði engar kröfur sér til handa, en vildi alltaf gleðja, enda var gleðiríkt að hitta hana og spjalla, fróð með afbrigðum og minnug. Hafði líka skemmtilegan húmor, eins og þegar hún orti um sjálfa sig: „Ég er orðin 88, um það þýðir ei að þrátta, utanveltu og utangátta!“ En það var hún aldeilis ekki, minnið brást ekki þótt líkaminn gæfi sig í hárri elli.
Við sendum henni hlýjar kveðjur inn á sólríkar lendur eilífðarinnar og vitum að þar ríkir nú gleði og hlátur. Okkur er þakklæti efst í huga fyrir allt sem frænka okkar var og ljúfar æskuminningar sem hún festi á filmu til framtíðar.
Gunnlaugs- og Helgubörn;
Guðmundur, Ingi, Gunnlaugur, Halldór, Þorsteinn og Guðrún Ingibjörg.
Örn Sigurðsson.