Byrjað er að klæða nýbyggingu Landsbankans í Austurhöfn. Húsið er klætt með íslensku blágrýti, stuðlabergi, sem kemur úr Hrepphólanámu í Hrunamannahreppi. Það eru Íslenskir aðalverktakar sem sjá um fullnaðarfrágang hússins. ÞG verk sá um uppsteypu hússins. Stefnt er að því að bankinn flytji starfsemi sína í nýja húsið fyrir árslok.
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Stjórnarráðið lýst yfir áhuga á því að kaupa svokallað Norðurhús nýbyggingarinnar. Viðræður við Stjórnarráðið um kaup á Norðurhúsi standa yfir og ganga vel, að sögn Rúnars Pálmasonar, upplýsingafulltrúa bankans.
„Það er vilji af beggja hálfu til að vinna málið eins hratt og kostur er en það liggur ekki fyrir á þessari stundu hvenær þeim verður lokið,“ segir Rúnar. Ef kaupin ganga eftir mun vera áformað að utanríkisráðuneytið flytji í húsið. sisi@mbl.is