Einar Farestveit fæddist 9. apríl 1911 á jörðinni Farestveit í Modalen á Hörðalandi í Noregi. Foreldrar hans voru Knut Knutsen Farestveit, óðalsbóndi á jörðinni Farestveit, og Anna Olavsdóttir Farestveit, fædd í Övre Helland í Modalen.

Einar Farestveit fæddist 9. apríl 1911 á jörðinni Farestveit í Modalen á Hörðalandi í Noregi. Foreldrar hans voru Knut Knutsen Farestveit, óðalsbóndi á jörðinni Farestveit, og Anna Olavsdóttir Farestveit, fædd í Övre Helland í Modalen. Jörðin Farestveit hefur verið í eign sömu ættar síðan 1746 er Botne-Ola kvæntist ekkjunni Önnu Sjurdóttur, sem sat þá jörðina. Jörðin kemur við sögu í Eglu, en Egill Skalla-Grímsson mun hafa haft næturstað þar er hann var á leið á konungsfund.

Einar hóf nám í Alþýðuskólanum í Fana utan við Björgvin eftir barnaskólagöngu. Hugur hans stefndi til háskólanáms í lögfræði en vegna fátæktar hóf hann nám við K. Nerheims Handelsskole í Molde þaðan sem hann lauk verslunarnámi.

Einar kom til Íslands 1933, ráðinn til að leiðbeina við uppsetningu á refabúum og kenna meðferð við refarækt. Hann varð síðar framkvæmdastjóri skinnasölu Loðdýraræktarfélags Íslands. Árið 1941 réðst hann til starfa hjá G. Helgason & Melsted hf. og gerðist framkvæmdastjóri þess félags. Þá var hann jafnframt framkvæmdastjóri Pan Am á Íslandi.

Árið 1964 stofnaði hann eigið fyrirtæki, Einar Farestveit & Co. hf., sem hann starfaði við til dauðadags. Einar var einn af stofnendum Tollvörugeymslunnar hf. og sat í stjórn hennar um árabil.

Eiginkona Einars var Guðrún Sigurðardóttir frá Hvammstanga, f. 1915, d. 1996. Þau eignuðust sex börn.

Einar og Guðrún stofnuðu árið 1991 sjóð, Gudrun og Einar Farestveits Fond. Þessi sjóður var stofnaður til að verðlauna og styrkja íslenska grunnskóla- og framhaldsskólanema sem vilja leggja stund á nám í norsku.

Einar var einn af frumkvöðlum félags Noregsvina hér á landi, Normannslaget. Hann tók mikinn þátt í skógræktarstarfi í Heiðmörk. Fyrir störf sín að samskiptum Íslands og Noregs var hann sæmdur riddaratign St. Olavs-orðunnar af 1. gráðu.

Einar Farestveit lést 14. ágúst 1994.