Loksins er sólin farin að skína og þá fer nú að lyftast á manni brúnin, svona að minnsta kosti ef maður reynir að gleyma því um stund að það geisar stríð í Evrópu. Sem er reyndar mjög erfitt að gera.
Í blaði dagsins er rætt við mæður sem hingað hafa flúið með börn sín, eina unglingsstúlku sem kom hingað án foreldra og Lyubomyru Petruk, formann Félags Úkraínumanna á Íslandi. Það tók á að hlusta á þeirra sögur því eins og fjöldi annarra úkraínskra kvenna þurftu þær að yfirgefa land sitt og skilja þar eftir eiginmenn, bræður og aldraða foreldra. Milljónir kvenna eru nú í sömu sporum að leita að öruggu skjóli fyrir sig og ekki síst fyrir börn sín. Börnin sem hingað eru komin eru nú örugg frá stríði, en öllu öðru í þeirra lífi hefur verið snúið á hvolf. Þau eru langt frá heimahögum, langt frá vinum og fjölskyldu og þau yngstu skilja ekki fyllilega hvað er að gerast. Íslenskir sjálfboðaliðar hafa verið duglegir að finna upp á einhverju til að stytta börnunum stundirnar.
„Ég hef séð í henni breytingar í hegðun; hún hefur grátið mikið og sýnt merki um áföll. Á Íslandi hefur hún fengið athygli og er að leika sér við önnur börn og því getur hún hugsað um aðra hluti en stríðið,“ segir Olga Keptanar sem sést hér á forsíðu með ungri dóttur sinni.
Það er nær ómögulegt að setja sig í spor þessara kvenna; eiginlega óhugsandi. Sem blaðamaður sem oft áður hefur tekið viðtöl við flóttafólk hef ég oftar en ekki þurft að taka á honum stóra mínum að halda aftur af tárunum. Það sem kom kannski á óvart í þetta skiptið var að á bak við sorgina og áfallið sem þær hafa orðið fyrir skein í eldmóðinn. Konurnar hugsuðu fyrst og fremt um hag barna sinna en þegar talið barst að stríðinu kom aðeins eitt til greina; sigur. Ein nefndi að málið snerist ekkert um hvort hún hataði Rússa eða ekki; hún vildi bara að þeir myndu láta þjóð sína í friði. Hún bar sterka von í brjósti um sigur Úkraínumanna því annars gæti hún ekki lifað áfram. Þær vilja geta snúið aftur einn góðan veðurdag í frjálst land.
Luybomyra trúir einnig á sigur Úkraínu en óttast að vonum hver fórnarkostnaðurinn verður; nógu margir hafa nú þegar fallið í stríðinu og voðaverkin munu lifa áfram með fólkinu um ókomna tíð. Hún gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir að stíga ekki skrefið til fulls og slíta öll tengsl við Rússa. Lítil þjóð getur verið sterk fyrirmynd og kannski er eina leiðin til að vinna stríðið að króa Pútín inni; að heimurinn loki alveg á hann.