Íslensk kona hefur verið dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir mansal og brot í nánu sambandi gagnvart fjórum stjúpbörnum sínum. Hún var sökuð um að hafa haft þau í nauðungarvinnu þegar þau voru börn að aldri. Þetta er fyrsti dómurinn í mansalsmáli síðan árið 2010 og sá fyrsti eftir að lögum um mansal var breytt á síðasta ári.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að dómurinn hafi fallið á fimmtudaginn, en hann hefur ekki enn verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjaness.
Konan var gift föður barnanna og var í ákæru sögð hafa flutt börnin til landsins. Þá var hún sögð hafa hýst þau og útvegað þeim vinnu hjá fyrirtæki þar sem hún var verkstjóri og stýrði daglegum rekstri. Sagði í ákærunni að þrjú barnanna hefðu verið látin vinna allt að þrettán klukkustundir á dag, sex til sjö daga í viku. Fjórða barnið hafi hins vegar unnið í allt að tvær klukkustundir, þrjá daga vikunnar. Laun barnanna, sem metin voru á rúmar 16 milljónir, átti konan að hafa nýtt í eigin þágu.
Kolbrún segir að málið hafi mikla þýðingu, enda sé það fyrsti dómurinn um mansal síðan fimm menn frá Litháen voru dæmdir í 4-5 ára fangelsi fyrir að hafa svipt unga konu frelsi. thorsteinn@mbl.is