Ólöf Þórey Haraldsdóttir fæddist á Siglufirði 21. júní 1943. Hún lést 27. febrúar 2022 á Landakotsspítala.

Foreldrar hennar voru Karólína Friðrika Hallgrímsdóttir, f. 1921 á Akureyri, d. 2013, og Haraldur Árnason, f. 1922 í Lambanesi í Fljótum, d. 2009.

Systkini Ólafar eru Helga, f. 1951, Ragnheiður, f. 1956, Árni, f. 1959, og Eyþór, f. 1960.

Eftirlifandi sambýlismaður Ólafar er Ásgeir Sigurðsson, f. 1937.

Útför Ólafar fór fram 22. mars 2022 frá Fossvogskapellu.

Engum sem kynntist Ólöfu Haraldsdóttur á lífsleiðinni duldist að hún var ein af þeim manneskjum sem eru bæði góðviljaðar og heilar í gegn. Hún var hávaxin og glæsileg og það fylgdi henni þessi sérkennilegi þokki sem góðar manneskjur hafa yfir sér. Við löðumst að þess konar fólki og finnum að því má treysta hvað sem yfir dynur. Að vera heilsteyptur krefst hugrekkis til þess að segja sannleikann án þess að bregða fyrir sig lygi við og við til þæginda. Ólöf sagði skoðun sína af festu og hreinskilni en með fágun sem var henni í blóð borin. Þar líktist hún Karólínu, mömmu sinni, sem aldrei hækkaði róminn þau ár sem ég þekkti hana og talaði við hana. Sumir eru hræddir við hreinskilni en gera sér ekki grein fyrir því að hún fylgir falsleysi sem er aðdáunarverður eiginleiki. Ólöf átti hann í ríkum mæli. Í því líktist hún bestu vinkonu sinni, Sigrúnu, systur minni, en vinátta þeirra stóð í meira en sex áratugi. Þær sátu hlið við hlið í Verslunarskólanum og voru hvor annarri stoð og stytta í öll þessi ár. Ólöf varð fljótlega vinkona allrar fjölskyldu minnar og öllum þótti vænt um hana. Hún var framúrskarandi gjafmild og kom færandi hendi í afmæli og aðra viðburði stórfjölskyldunnar. Börnin muna hana öll.

Það er ekki hægt að kveðja Ólöfu án þess að minnast á stóru gæfuna í lífi hennar, Ásgeir Sigurðsson. Þau voru andlegir tvíburar, sálufélagar. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að dvelja nokkrum sinnum með þeim í sveitinni þeirra, að Reykjum í Lundarreykjadal í Borgarfirði. Þau nutu sín vel þar, Ásgeir við trjárækt á meðan Ólöf hvíldi sig eða eldaði alíslenskan mat og athugaði hvernig gengi hjá vinum þeirra, bændum á næstu bæjum. Þau tóku mig með í heimsóknir til þeirra og það var merkileg reynsla.

Ég mun sakna Ólafar það sem eftir er ævinnar. Hún var svo góð, hlý og traust. Farðu í friði, elsku Ólöf.

Ásgeiri og systkinum og systkinabörnum Ólafar votta ég mína innilegustu samúð.

Guðrún Finnbogadóttir.