Ríkisendurskoðun féllst í gær á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að gera úttekt á því hvort útboð og sala á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars sl. hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Er stefnan sett á að skila niðurstöðum í júní.
Þingmenn minnihlutans voru þó ekki sáttir en þeir höfðu farið fram á að rannsóknarnefnd Alþingis rannsakaði sölumeðferðina. Krafa þeirra var ekki samþykkt í gær þegar þingfundi lauk og var það harðlega gagnrýnt. Þingið er nú komið í frí fram yfir páska og því ekki hægt að afgreiða kröfuna á næstunni.
Segir lög ekki hafa verið brotin
Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale-háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, telur að sölumeðferðin hafi brotið í bága við 3. gr. og mögulega 2. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.Á brotið að felast í því að valdir voru yfir 150 aðilar sem keyptu magn bréfa sem var svo lítið að það hefði ekki hreyft við markaðsvirði Íslandsbanka ef þeir hefðu keypt bréfin á eftirmarkaði.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, vísar þeim ásökunum á bug og segir ekki samræmi milli umræddra lagagreina og þess sem Sigríður vitnar í. Þá hafnar hann því að forsendur útboðsins hafi ekki staðist, eins og haldið hefur verið fram. Hann vekur jafnframt athygli á því að hvergi hafi komið fram að einblína ætti á langtímafjárfesta eða að takmarka ætti fjölda þeirra við nokkra tugi. Hann segir aðilana á listanum ekki hafa verið handvalda heldur hafi verið stuðst við skilgreiningu um „hæfa fjárfesta“.
hmr@mbl.is