Kristín Helgadóttir fæddist á Hjalteyrargötu 1, Akureyri 1. ágúst 1931. Hún lést á Droplaugarstöðum 5. mars 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Helgi Thorberg Kristjánsson vélstjóri, f. 20.9. 1904 í Ólafsvík, d. 9.9. 1976 í Reykjavík, og Petrína Kristín Jónsdóttir, f. 13.8. 1909 á Búðum, d. 22.3. 2002 í Reykjavík.

Bræður Kristínar eru: Jón, f. 1932, d. 2019, kvæntur Aðalheiði Margréti Guðmundsdóttur, látin; Kristján, f. 1934, kvæntur Björgu Láru Jónsdóttur, látin; og Jóhannes, f. 1936, d. 2021, kvæntur Fríðu Sigurveigu Traustadóttur.

Eiginmaður Kristínar var Reinharð Vilhelm Sigurðsson (Harrý), f. í Hafnarfirði 20.12. 1927, d. 10.12. 2014. Foreldrar hans voru Ásta Júlíusdóttir, f. 16.4. 1900, d. 14.5. 1970, og Sigurður Kristinn Ólafsson, f. 12.8. 1901, d. 18.8. 1955. Kristín og Reinharð gengu í hjónaband 1.2. 1955 í Farsö á Jótlandi. Börn þeirra: 1) Helga Margrét, f. 24.3. 1949, gift Benedikt Senstius Benediktssyni. Dætur Helgu Margrétar eru a) Hildur Margrétardóttir, f. 1968, gift Jóhannesi Bjarna Eðvarðssyni, börn þeirra Una, f. 1991, og Hafsteinn Snorri, f. 2001. Una er gift Bjarti Steingrímssyni og er dóttir þeirra Ylja, f. 2019. b) Ásdís María Helgudóttir f. 1974, sonur hennar og Þórðar Inga Guðnasonar er Eiríkur Ingi, f. 1997. Börn Benedikts og fyrri eiginkonu hans Guðrúnar Erlu Þormóðsdóttur eru Laufey, gift Tómasi Tómassyni, börn Tómas Aron, Erla Mjöll og Haukur Már, og Benedikt, kvæntur Rut Þorgeirsdóttur, börn Ástrós Erla og Benedikt. 2) Stúlka, f. 23.2. 1953, d. 24.2. 1953. 3) Sigurður, f. og d. 8.2. 1954. 4) Ósk, f. 23.8. 1955, d. 1.9. 1955. 5) Reinharð Vilhelm, f. 19.3. 1960, dóttir hans og Þóru Álfþórsdóttur er Þórhildur, f. 1981, gift Kára Snæ Guðmundssyni og eiga þau Kötlu Ósk, f. 2010, og Ketil Mána, f. 2012. Börn Reinharðs og fv. eiginkonu, Sigríðar Albertsdóttur, eru Þóra Kristín, f. 1991, sambýlismaður Arnþór Daði Guðmundsson, sonur þeirra er Vilhelm Logi, f. 2020, Margrét Sól, f. 1994, og Helgi Albert, f. 1998, sambýliskona Birta Haraldsdóttir.

Foreldrar Kristínar bjuggu fyrst á Akureyri, þar sem systkinin fjögur fæddust. Árið 1938 flutti fjölskyldan til Siglufjarðar og bjó þar til ársins 1953. Kristín var í sveit á Staðarhóli í Öngulstaðahreppi í sex sumur og einn vetur. Sem barn og unglingur var hún virk í skátahreyfingunni. Kristín lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar 1947. Hún kynntist ung Harrý barnsföður sínum og síðar eiginmanni, en þau bjuggu á Jótlandi á árunum 1954-1956. Þau bjuggu lengst af í Kópavogi en fluttu til Reykjavíkur 1978 en fluttu svo aftur í Kópavog 2008. Þau keyptu sér hús í Torrevieja á Spáni og bjuggu þar níu mánuði ársins í meira en áratug. Kristín var heimavinnandi fyrstu hjúskaparárin. Hún vann fyrst hjá Póstinum og við umönnun í Kópavogi, síðan við verslunarstörf hjá Rammagerðinni á Hótel Sögu, við skrifstofustörf hjá Pfaff í Borgartúni og loks hjá Raunvísindastofnun Háskólans.

Útför Kristínar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Sæl og blessuð, þetta er Kristín Helgadóttir, föðursystir þín. Já, það fór ekki á milli mála þegar hún hringdi hún Stína frænka, formlega kynnt og frændgarðurinn á hreinu.

Stína var elst fjögurra systkina og pabbi minn, Jói, yngstur. Mikill og góður vinskapur einkenndi samband systkinanna allra og var Stína ókrýndur ættarhöfðingi, stjórnsöm og ákveðin.

Núna er hún farin frá okkur en eftir standa margar góðar minningar. Ein stendur upp úr hjá mér. Það var þegar mamma lá síðustu sængurleguna og ég var send um hásumar til Stínu frænku á Þinghólsbrautina.

Harrý frændi var á sjó og Helga frænka í Danmörku þannig að það voru bara ég, Harrý litli og Stína sem áttum saman dásamlega viku. Sumarblíða og við Harrý lékum úti allan guðslangan daginn þar til kallað var á okkur í drekkutíma eða mat.

Heimili þeirra var einstakt, yfirfullt af framandi hlutum sem keyptir höfðu verið á siglingum um öll heimsins höf. Uppi á lofti var herbergi Helgu frænku, og þangað læddist ég í forvitni minni. Þar tóku á móti mér Bítlarnir frá Liverpool í fullri stærð – úr pappa – og allt herbergið veggfóðrað með myndum af þeim köppum. Nælur, pennar og alls konar glingur með myndum af þeim. Það var erfitt að slíta sig frá þessum ævintýraheimi. En allt gott tekur enda og einn góðan veðurdag kallaði Stína í mig og sagði mér að á leiðinni væri leigubíll með foreldra mína og nýja bróður minn. Ég vildi eiginlega alls ekki fara en þegar ég kom inn í bílinn og sá litla bróður minn þá gleymdust öll önnur ævintýr.

Núna er Stína frænka farin á vit nýrra ævintýra með Harrý sínum, sem mun verða hennar samferðamaður þar eins og í þeim siglingum sem þau fóru í hérna megin.

Við fjölskyldan sendum Helgu, Harrý og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Björg Jóhannesdóttir.