Margir tengja stofnun Sögufélags við hræringar sem þá voru í íslensku samfélagi í aðdraganda sjálfstæðis þjóðarinnar í upphafi 20. aldar,“ segir Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags, sem nú fagnar 120 ára afmæli. Félagið er vettvangur íslenskrar sögu og sagnfræði en margt hefur breyst á 120 árum.
„Sögufélagið var stofnað árið 1902 og áherslan þá var að gefa út heimildir um sögu Íslands. Árið 1915 byrjaði félagið að gefa út Alþingisbækur Íslands, sem eru grundvallarheimildir um síðari aldir, en einnig var áhersla á að gefa út dómasöfn. Alltaf hefur verið lykilatriði hjá félaginu að miðla sögunni til almennings og strax árið 1918 hóf það að gefa út tímaritið Blöndu, þar sem birtur var „gamall fróðleikur og nýr“ eins og sagði í undirtitli þess. Blanda var gefin út í rúma þrjá áratugi eða fram til 1953,“ segir Hrefna og bætir við að Sögufélagið hafi í útgáfunni einbeitt sér að tímabilinu eftir siðaskiptin, því það var litið svo á að Bókmenntafélagið tæki að sér að gefa út miðaldabókmenntir. „Sögufélagið tók til sín ábyrgðina á að gefa út heimildir til sögu Íslands á síðari öldum.“
Tímaritið Saga, sem félagið hóf að gefa út árið 1949, er enn helsta fræðitímarit landsins á sviði sagnfræði um íslensk málefni.
„Um aldamótin 2000 var farið að gefa Sögu út tvisvar á ári og leitast er við að hafa fjölbreytta nálgun í efnisvali. Þar eru gefnar út ritrýndar fræðilegar greinar og ýmsar greinar um álitamál samtímans, ritdómar, umræður um bækur og fleira. Tuttugu til þrjátíu höfundar eru með efni í hverju hefti og þetta er hugsað sem lesefni fyrir alla, ekki einvörðungu sagnfræðinga,“ segir Hrefna og bætir við að ritstjórar Sögu séu Vilhelm Vilhelmsson og Kristín Svava Tómasdóttir.
Viðburðir í nýju húsnæði
Hrefna segir að mesta breytingin hjá Sögufélaginu undanfarin tíu til tuttugu ár sé stóraukin bókaútgáfa á vegum félagsins.„Bækur hafa alltaf verið gefnar út samhliða heimildaútgáfu, en síðustu ár hefur verið meiri áhersla á fjölgun rita af ýmsu tagi. Í tilefni af afmæli kosningaréttar kvenna gáfum við til dæmis út bók sem heitir Konur sem kjósa, rit sem er fræðilegt en gert þannig úr garði að það er læsilegt fyrir almenning, sem er einmitt leiðarljósið núna í allri útgáfu félagsins. Fyrir síðustu jól kom út bók um menningarumræðu kalda stríðsins. Við viljum að efnið standist allar fræðilegar kröfur en sé á sama tíma aðgengilegt og vel frá gengið.“
Sögufélagið var lengi til húsa í Fischersundi og þar var líka rekin verslun.
„Núna erum við einvörðungu með forlagsverslun í nýju aðsetri okkar, en ekki er rekin miðbæjarverslun. Með breytingum í miðbænum voru tímar þess liðnir og það var of stórt verkefni að reka bæði búð og húsnæði, því miður þurfti að hætta því. Sögufélagið er ekkert af baki dottið, þótt 120 ára sé, við erum ungur öldungur og við höldum vakandi samtalinu við sögu og sagnfræði með því að vera líka með viðburði. Við erum flutt í Gunnarshús, hjá Rithöfundasambandinu á Dyngjuvegi, og höfum verið þar til húsa frá því árið 2016. Að frátöldum verstu covid-tímabilunum, þá leitast félagið við að hafa nokkra viðburði á hverju ári sem eru opnir bæði fyrir almenning og fyrir alla félagsmenn, en um 700 félagsmenn eru í félaginu. Þetta eru bókakynningar og umræður um bækur, og ýmislegt fleira.“
Hlaðvarpið Blanda
Hrefna er önnur konan sem gegnir forsetaembættinu, en á síðustu öld var Sögufélagið meira karlaveldi sem gaf mest út verk eftir karla, í takt við fyrri tíðaranda.„Anna Agnarsdóttir, fyrrverandi prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, var fyrsta konan til að verða forseti félagsins árið 2005. Við höfum reynt á síðustu árum að stuðla að jöfnum hlutföllum kynja og það er gríðarlega mikil ásókn í að gefa út hjá félaginu. Við höfum ekki tök á að bregðast við öllu og mörgu þarf því miður að hafna. Á undanförnum árum höfum við verið að leggja meira í vefsíðuna okkar, gera hana að menningarsögulegri síðu um bækur, því þótt síðan sé sölusíða þá eru þar líka upplýsingar um bækurnar sem við gefum út, ritdómar og fleira. Undanfarin tvö ár höfum við líka verið með hlaðvarpið Blöndu, sem við skírðum í höfuðið á upphaflegu tímariti félagsins sem ætlað var til að ná til almennings. Hlaðvarpsstjórar eru þeir Markús Þ. Þórhallsson og Einar Kári Jóhannsson, og þar eru viðtöl við höfunda bóka sem eru að koma út hverju sinni og líka viðtöl við höfunda sem skrifa greinar í tímaritið Sögu og tekin fyrir söguleg efni tengd samtímanum. Sögu félagsins er einnig sinnt í hlaðvarpinu,“ segir Hrefna og tekur fram að hlaðvarpið sé hægt að nálgast á öllum hlaðvarpsveitum en líka á vefsíðu félagsins: sogufelag.is.