Úr bæjarlífinu
Jónas Erlendsson
Vík í Mýrdal
Í Mýrdalnum er allt að vakna til lífsins, vorið á næsta leiti, ferðamenn streyma á staðinn og sauðfjárbændur eru að undirbúa sauðburðinn.
Uppbygging á húsnæði heldur áfram en verulegur skortur hefur verið á því á staðnum. Hafa atvinnurekendur af þeim sökum verið að kaupa upp hluta af því húsnæði sem losnar fyrir starfsfólk sitt.
Undirbúningur er hafinn fyrir byggingu á 12 íbúða fjölbýlishúsi við Sléttuveg í Vík, einnig er hreppsnefnd búin að samþykkja viljayfirlýsingu með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, um enn frekari fjölgun íbúða, með það að markmiði að tryggja fjölbreyttan búsetukost.
Um er að ræða leiguíbúðir þannig að íbúar yrðu ekki lengur háðir vinnuveitanda með húsnæði, og atvinnurekendur þyrftu ekki að binda fjármagn sitt í íbúðarhúsnæði.
Einnig er verið að auglýsa útboð á byggingu nýs og stærri leikskóla. Um er að ræða 698 fermetra hús með þremur deildum sunnan við grunnskóla Mýrdalshrepps.
Vonir standa til að ef næg leikskólapláss verði fyrir hendi, þá verði auðveldara að laða fjölskyldufólk á svæðið.
Eftir erfiðan vetur hvað varðar sandfok í þorpinu í Vík, eru fyrirhugaðar aðgerðir til að reyna að hefta sandfokið með áburðargjöf snemma vors í fjörukambinn. Einnig þarf að setja upp sandgirðingu til að stoppa sandfokið upp úr fjörunni.
Fyrirhugað er að reyna að fá allt að 300 heyrúllur til að raða vestur af vestari sandfangara. Heildarkostnaður samkvæmt verkáætlun liggur á bilinu 3,5 til 4,1 milljón króna. Þar til viðbótar kemur svo kostnaður við að stýra ferðamönnum í fjöruna með girðingum.
Sauðfjárbændur eru að undirbúa sauðburð í skugga mikilla hækkana á öllum aðföngum, svo sem áburði. Olíustyrknum, sem ríkið veitti bændum til áburðarkaupa, var afar undarlega úthlutað. Fyrir flesta bændur var upphæðin svo lítil að hún skiptir nánast engu máli þegar upp er staðið. Svo eru dæmi um að bændur fengu styrk sem höfðu ekki keypt neinn áburð.
Tveir listar verða í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningar í Mýrdalshreppi í vor, A-listi allra og B-listi Framsóknar og óháðra í Mýrdalshreppi. Kosið er um fimm sæti í sveitarstjórninni. Í síðustu kosningum fékk T-listi Traustra innviða þrjá fulltrúa kjörna og L-listi Framtíðarinnar tvo.