[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt þessa páska? Gefðu þér tíma í eldhúsinu til að matbúa handa vinum og fjölskyldu eitthvað nýtt sem mun koma öllum skemmtilega á óvart. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt þessa páska? Gefðu þér tíma í eldhúsinu til að matbúa handa vinum og fjölskyldu eitthvað nýtt sem mun koma öllum skemmtilega á óvart.

Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Íslenskt lambalæri með ávöxtum

Albert Eiríksson gefur hér uppskrift að frábæru páskalambi með þurrkuðum ávöxtum.

1 lambalæri

1 pk. þurrkaðir ávextir

2-3 msk. koníak

1 msk. timían

1 msk. rósmarín

börkur af einni sítrónu, saxaður

1 lamba/nauta-súputeningur

salt og pipar

Setjið þurrkaða ávexti í skál og hellið koníakinu yfir ásamt sítrónuberki, helmningnum af timíani og rósmaríni. Geymið í ísskáp yfir nótt. Úrbeinið lambalærið. Saxið súputeninginn, blandið saman við ávextina og setjið inn í lærið. Kryddið með salti, pipar, timían og rósmaríni. Bindið saman með garni og súvídið (sous vide) á 62 í fjóra tíma. Takið því næst úr pokanum, setjið í 220°C heitan ofn í 10-12 mín.

Frá alberteldar.com

Páskalamb frá Georgíu

Fyrir 8-10

(Tekur fimm tíma í allt)

2 tsk. kóríanderfræ

2 tsk. fennelfræ

1 búnt kóríander

1 búnt dill

3 lítil búnt estragon

4 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar

2 niðursoðnar sítrónur, skornar niður með hýði og öllu

4 hvítlauksrif, skorin gróft

¼ bolli ólífuolía, og auka til að nota að lokum

2 tsk. salt (eða meira)

1 lambalæri

2 kg kartöflur (baby Yukon Gold)

2 sítrónur, skornar í báta

sjávarsalt (flögur)

Hitið ofninn í 160°C. Ristið kóríanderfræ og fennelfræ á þurri pönnu yfir miðlungshita þar til þau fara að ilma, eða í um tvær mínútur. Hristið pönnuna annað slagið. Látið þau svo kólna.

Skerið kóríanderlaufin gróft og setjið í stóra skál. Skerið næst dillið sömuleiðis og bætið út í skálina. Tínið blöðin af estragoni (ekki skera) og bætið út í skál. Bætið út í skorna vorlauknum.

Takið um það bil 2 bolla af þessari blöndu og setjið í aðra skál, setjið yfir hana blautan klút og geymið í ísskáp.

Setjið afganginn af blöndunni í matvinnsluvél, bætið út í kóríander- og fennelfræjum, niðursoðnu sítrónunum, hvítlauknum, ¼ bolla olíu og 2 teskeiðum af salti. Blandið vel þar til orðið að fíngerðu mauki.

Takið álpappír sem er meira en tvöfalt lengri en bökunarskúffa. Setjið lambið á miðju. Nuddið kryddjurtablöndunni yfir lambið. Pakkið svo lambinu vel inn í álpappírinn og setjið í eldfast mót eða ofnskúffu. Eldið lambið í ofninum í 4-4 ½ tíma, eða þar til kjötið dettur af beini. (Ekki opna álpappírinn á meðan lambið eldast; ef þú vilt tékka á því, stingdu hnífi eða pinna inn að beini.)

Á meðan lambið eldast skaltu setja kartöflur í stóran pott með vatni sem flýtur yfir. Saltið. Náið upp suðu og sjóðið í um það bil hálftíma, þar til þær eru tilbúnar. Hellið vatninu af og setjið í skál.

Takið lambið út og úr álpappír og passið að allur safinn verði eftir í ofnskúffu eða eldfasta mótinu. Látið lambið kólna í 20 mínútur. Skerið það síðan á skurðarbretti en það ætti að detta vel í sundur. Færið lambið aftur í eldfasta mótið og blandið safanum saman við.

Færið lambið á fallegt fat og hellið safanum yfir lambið og kartöflurnar. Takið nú kryddjurtirnar sem þið geymduð og stráið yfir. Kreistið sítrónu yfir og ólífuolíu og dreifið sjávarsalti yfir.

Í þessum rétti frá Georgíu má nota ýmsar kryddjurtir aðrar; um að gera að prófa til dæmis myntu og basil.

Ítölsk páskabaka

Þessi ítalska páskabaka, torta pasqualina, er tilvalin í bröns eða hádegismat yfir páskahelgina.

Botn

500 g hveiti

2 msk. ólífuolía

300 g vatn

smá salt

Fylling

750 g spínat

750 g grænkálsblöð

1 laukur

500 g ricotta-ostur

200 g rifinn parmesan

8 egg

nokkur timían-laufblöð

salt, pipar og múskat

ólífuolía

Útbúið deigið með því að byrja á að blanda saman hveiti, vatni, salti og ólífuolíu. Skiptið deiginu í fjóra hluta og fletjið út þunnt.

Skerið lauk smátt og eldið á pönnu í 2 matskeiðum af ólífuolíu. Þegar hann er orðinn gullinbrúnn, bætið út á pönnuna grænkáli og spínati. Saltið eftir smekk. Bætið við nokkrum laufum af timían. Látið þetta eldast vel og látið svo kólna. Skerið svo allt smátt og bætið við tveimur eggjum og blandið.

Á meðan, blandið saman í skál ricotta-osti, salti, parmesan og smá múskati.

Takið kringlótt form og leggið tvö lög af deigi í botninn, en á milli þeirra skaltu pensla ólífuolíu.

Blandið grænu blöndunni saman við ostablönduna og hellið yfir deigið. Með bakhlið á skeið, þrýstu niður sex holur í blönduna, hringinn í kring. Settu sex hrá egg í holurnar.

Lokið bökunni með hinum tveimur lögunum af deigi og aftur skaltu pensla með olíu á milli.

Lokið bökunni vandlega og penslið með ólífuolíu. Bakið í ofni á 180°C í eina klukkustund.

Berið fram volga eða kalda.

Pólskt rauðkál

1 haus rauðkál, skolað, þurrkað og skorið

1 miðlungsstór laukur, mjög smátt skorinn

2 msk. ósaltað smjör eða canola-olía

1 bolli vatn

4 msk. rauðvínsedik

4 þéttar skeiðar púðursykur

½ tsk. nýmalaður pipar

1 tsk. salt

Eldið í stórum potti kálið og laukinn saman í smjöri eða olíu á miðlungshita þar til allt mýkist aðeins. Það tekur um það bil fimm mínútur.

Á meðan, blandið í litla skál vatni, ediki, púðursykri, pipar og salti þar til allt leysist upp. Blandið þessu saman við kálið. Látið suðu koma upp og lækkið svo, setjið lok á og haldið áfram að elda. Hrærið af og til. Rauðkálið er tilbúið eftir um fimmtán mínútur. Kælið yfir nótt til að ná bragðinu betur fram.

Simnelkaka frá Stóra-Bretlandi

Þessi kaka er tilvalin í eftirrétt um páskana, nú eða bara með kaffinu!

250 g blandaðir þurrkaðir ávextir (ljósar og dökkar rúsínur, þurrkuð rifsber (currant) og blanda sem kallast „candied mixed peel“ sem er börkur af sítrónu, lime og appelsínu skorið smátt og látið marínerast í sírópi. Svo má líka skipta þessu út fyrir smátt skornar apríkósur.)

1 appelsína, börkur rifnn og safinn kreistur

500 g pakki marsípan

250 g smjör, við stofuhita

200 g ljós, mjúkur púðursykur

4 egg og eitt að auki til að pensla með

175 g hveiti

100 g hakkaðar möndlur

1 tsk. lyftiduft

1 sítróna, börkur rifinn með rifjárni

2 tsk. allrahanda krydd

1 tsk. vanilludropar

100 g niðursoðin kirsuber, skorin í tvennt

3 msk. apríkósusulta

Setjið alla þurrkuðu ávextina í skál ásamt safanum úr appelsínu og rifna berkinum og tveimur matskeiðum af vatni.

Setjið inn í örbylgjuofn og hitið í 2 mínútur og látið svo alveg kólna.

Það má líka hita þetta á pönnu og hræra þar til safinn hefur að mestu gufað upp.

Hitið ofn í 150°C eða 130°C ef stillt á blástur.

Fletjið út 1/3 af marsípaninu og notið botninn af 20 cm kökuformi til að skera út hring. Geymið afskurð og hina 2/3 af marsípani. Smyrjið form og setjið í það smjörpappír.

Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst. Bætið út í eggjum, hveiti, möndlum, lyftidufti, rifnum sítrónuberki, allrahanda kryddi og vanilludropum og blandið vel.

Blandið nú öllum ávöxtunum saman við og að lokum kirsuberjunum.

Hellið helmingnum af kökudeiginu í formið. Setjið marsípanhringinn ofan á. Þar næst setjið þið afganginn af deiginu og jafnið út yfirborðið með kökuspaða.

Bakið í 2 klukkutíma. Athugið hvort kakan sé bökuð með því að stinga í hana trépinna. Ef hann kemur út blautur, bakið kökuna í tíu mínútur í viðbót og athugið aftur.

Þegar kakan er tilbúin, látið hana kólna í forminu í korter. Takið hana svo úr og látið kólna alveg.

Smyrjið apríkósusultu ofan á kökuna.

Fletjið út helminginn af restinni af marsípaninu í eins stóran hring og kakan er sjálf, eins og áður.

Leggið þann hring ofan á kökuna. Takið afganginn af marsípani og búið til ellefu jafnstórar kúlur. Penslið marsípanið með eggi sem slegið hefur verið saman.

Raðið kúlunum ofan á kökuna, þannig að þær myndi hring. Penslið smá eggi á þær líka.

Setjið í ofn sem stilltur er á grill í eina til tvær mínútur, rétt til að karmelísera marsípanið, en passið að það brenni ekki.

Látið kólna. Hægt er að setja slaufu í kringum kökuna ef þið viljið skreyta hana eitthvað frekar.