Senjóríturnar, kór eldri kvenna í Reykjavík, halda tónleika í Langholtskirkju klukkan 16 í dag og syngur Bubbi Morthens með konunum.
Tónleikarnir áttu að vera í nóvember á liðnu ári en þeim varð að fresta á síðustu stundu eftir að Bubbi greindist með kórónuveiruna. „Við löðum að okkur fræga menn,“ sagði Silja Aðalsteinsdóttir, formaður kórsins, við Morgunblaðið í haust sem leið og hún var full tilhlökkunar í gær. „Aðalæfingin gekk alveg prýðilega,“ sagði hún, en í hljómsveitinni eru Róbert Þórhallsson, Einar Scheving og Vilberg Viggósson, og lög eftir Bubba verða á dagskrá.