Sveitarfélögum er nú í fyrsta skipti gert að greiða fyrir aðkomu Þjóðskrár Íslands að undirbúningi sveitarstjórnarkosninga vegna ákvæða í nýju kosningalögunum.

Sveitarfélögum er nú í fyrsta skipti gert að greiða fyrir aðkomu Þjóðskrár Íslands að undirbúningi sveitarstjórnarkosninga vegna ákvæða í nýju kosningalögunum. Fram kemur í áætlunum Þjóðskrár að heildarkostnaðurinn af verkefnum Þjóðskrár vegna kosninganna 14. maí sem falla á sveitarfélögin gæti orðið um tólf milljónir króna.

Fram kemur í umfjöllun um þetta á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga að í lögunum sé ekki að finna frekari leiðbeiningar um hvernig kostnaður vegna kosninganna skiptist niður eftir sveitarfélögum. Því hafi verið reynt að finna leið til að skipta kostnaði niður á öll sveitarfélög en Þjóðskrá leggur til að fastur grunnkostnaður, 122.331 kr., skiptist jafnt á öll sveitarfélög en jafnframt greiði sveitarfélög hlutdeild í kostnaði miðað við íbúafjölda.

Á fundi stjórnar Sambands sveitarfélaga var fallist „í ljósi aðstæðna á tillögu Þjóðskrár að kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga en [stjórnin] felur framkvæmdastjóra að taka upp viðræður við ríkið sem miða að því að þessi þjónusta verði sveitarfélögum að kostnaðarlausu í framtíðinni“.

Fram kemur í greinargerð Þjóðskrár um málið að umræddur kostnaður snúi að verkefnum sem Þjóðskrá fer með við sveitarstjórnarkosningar, m.a. vakt stofnunarinnar á kjördag, rekstur vefsins „Hvar á ég að kjósa?“, meðmælendakerfi á Ísland.is og umsóknarkerfi fyrir námsmenn á Norðurlöndum. Reykjavíkurborg greiðir hæstu upphæðina samkvæmt áætlun Þjóðskrár eða um 1,4 milljónir, Kópavogsbær tæpar 500 þúsund kr. og Hafnarfjörður 405 þúsund kr.

omfr@mbl.is