Agnes Jóhannsdóttir lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 7. apríl sl., 95 ára að aldri.
Agnes fæddist í Keflavík 19. janúar 1927. Hún var dóttir hjónanna Guðrúnar Pétursdóttur og Jóhanns Gunnlaugs Guðjónssonar. Bræður hennar, Guðjón Ingiber, Pétur og Jón, eru allir látnir.
Æskuárin í Keflavík voru viðburðarík gleðiár en sorgum blandin, lituð af hinum skelfilega bruna í Skuld, en Agnes komst út úr húsinu ósködduð sjö ára gömul, og svo berklafaraldrinum sem hjó skörð í hóp jafnaldra hennar. Agnes tók virkan þátt í skátastarfi með Heiðarbúum þar sem hún fékk m.a. óbilandi áhuga á söng og leiklist.
Agnes hlaut hefðbundna menntun í Barnaskóla Keflavíkur, en hleypti svo heimdraganum og var einn vetur í Héraðsskólanum í Reykholti í Borgarfirði. Síðar stundaði hún nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og tók þátt í nokkrum leiksýningum, m.a. í revíunni Bláu stjörnunni í Sjálfstæðishúsinu og söngleiknum Einu sinni var í Iðnó en eftirminnilegast var að hlaupa um stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu og hrópa að eldur væri í Kaupinhöfn í Íslandsklukkunni rétt eftir vígslu hússins árið 1950.
Agnes starfaði við ýmislegt sem til féll í Keflavík og í Reykjavík frá unga aldri, m.a. starfaði hún nokkur ár í kaupfélaginu í Keflavík og rak lítið útibú þess rétt rúmlega tvítug. Hún var seinna félagi í Kvenfélaginu Hringnum og Inner Wheel og átti auðvelt með að halda ræður, hvort sem var undirbúið eða beint frá brjóstinu.
Árið 1952 giftist hún Haraldi Sveinssyni, forstjóra Timburverslunarinnar Völundar, sem síðar varð framkvæmdastjóri Morgunblaðsins og stjórnarformaður Árvakurs um árabil. Haraldur lést árið 2019, 94 ára að aldri. Börn þeirra Agnesar eru Soffía, Ásdís, Jóhann og Sveinn. Barnabörnin eru fimm og langömmubörnin sex.
Agnes tengdist Morgunblaðinu alla tíð sterkum böndum. Á kveðjustund þakkar blaðið samfylgdina og vottar fjölskyldu hennar dýpstu samúð.
Agnes verður jarðsungin frá Langholtskirkju laugardaginn 23. apríl og hefst athöfnin kl. 14.