Einingahúsið í hverfinu Shimbashi í Tókýó þótti framúrstefnulegt þegar það var reist 1972. Það hefur látið á sjá og í vikunni á að byrja að rífa það.
Einingahúsið í hverfinu Shimbashi í Tókýó þótti framúrstefnulegt þegar það var reist 1972. Það hefur látið á sjá og í vikunni á að byrja að rífa það. — AFP/Charlie Triballeau
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nakagin-einingaturninn í Tókýó þótti eins og leiftur úr framtíðinni þegar hann var reistur 1972. Turninn er kominn í niðurníðslu, minnisvarði um geimöld, sem ekki kom, og nú á hann að hverfa.

Tókýó. AFP. | Hefjast á handa við að rífa Nakagin-turninn í Tókýó í Japan 12. apríl og lýkur þar með langri baráttu fyrir því að bjarga honum. Hönnun turnsins var byggð á geimaldarsýn og var hann settur saman úr litlum einingum eða hylkjum. Arkitektinn Kisho Kurokawa teiknaði turninn og er hann minnisvarði um metabólismahreyfinguna í húsagerðarlist. Hún snerist um að skapa sjálfbærar vistarverur, sem fólk gæti tekið með sér þegar það flytti.

Byggingin er sett saman úr tugum eininga með stórum hringlaga gluggum. Húsið var þannig að hægt átti að vera að fjarlægja hverja einingu fyrir sig og koma annarri fyrir í staðinn. Gert var ráð fyrir að skipt yrði um þær á 25 ára fresti. Þær hafa allar verið á sínum stað frá upphafi og í áranna rás hefur húsið drabbast niður.

Eigendurnir hugðust fjarlægja einhverjar einingar og varðveita þær áður en niðurrifið hæfist á þriðjudag.

„Við vitum ekki enn hvað við náum að bjarga mörgum einingum, en við hyggjumst laga einhverja hluti, sem hafa látið á sjá, og endurnýja einingarnar svo við getum sent þær á söfn, svo dæmi sé tekið,“ sagði Tatsuyuki Maeda, sem keypti sér sína fyrstu einingu í turninum 2010 og hefur gert nokkrar þeirra upp sjálfur, við AFP skömmu fyrir mánaðamót. „Þetta eru ekki alger endalok byggingarinnar og ég hlakka til að sjá einingarnar ganga í endurnýjun lífdaga.“

Hver eining var hönnuð sem örheimili eða skrifstofa. Flatarmál þeirra var aðeins tíu fermetrar og voru þær með niðurfellanlegu borði til að nýta pláss. Í hylkinu var komið fyrir bökunarofni, ísskáp, sjónvarpi og segulbandi ásamt innbyggðum skápum. Baðherbergið var á stærð við flugvélaklósett. Hugmyndin var sú að einhleypir skrifstofumenn, sem Japanir kalla salarimen, myndu búa í húsinu.

Kurokawa lagði til að einingunum í húsinu yrði skipt út fyrir nýjar, uppfærðar einingar, en ekki varð af því. Hann lést árið 2007, en fyrirtækið, sem hann stofnaði, tekur þátt í að varðveita einingar úr því.

Ýmis vandamál hafa komið upp í byggingunni. Vatnsleiðslur hafa tærst upp og lekaskemmdir eru víða. Í húsinu eru 140 einingar, en í nóvember var aðeins búið í 20 þeirra. Sumir eigendanna voru spenntari fyrir því að húsið yrði rifið en að borga fyrir viðhald þess.

Á félagsmiðlum brást fólk við með sorg og eftirsjá.

„Einingahúsið verður bráðum rifið... Það verður mjög sorglegt að sjá hús sem við dáðum hverfa,“ skrifaði notandi á Twitter.

„Loks verður það rifið. Það er verðmætt, en það var rétt ákvörðun að rífa það vegna þess að það var orðið ansi niðurnítt,“ skrifaði annar.