Unnin skreið undir segldúk. Ekki segir hvort um er að ræða Afríkuskreið.
Unnin skreið undir segldúk. Ekki segir hvort um er að ræða Afríkuskreið. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
„Skreið til Nígeríu,“ sagði í fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins fyrir hálfri öld, nánar tiltekið 9. apríl 1972.

„Skreið til Nígeríu,“ sagði í fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins fyrir hálfri öld, nánar tiltekið 9. apríl 1972. Var þar vísað til þess að nokkru fyrr hefði Yakubu „Jack“ Gowon, þáverandi forseti Nígeríu, lýst yfir því í sjónvarpsávarpi að tímabundinn innflutningur á skreið yrði leyfður til að bæta kost landsmanna, en þess yrði vandlega gætt að skerða í engu hagsmuni fiskiðnaðar Nígeríu.

Þegar þetta var höfðu Íslendingar ekki selt skreið til Nígeríu síðan haustið 1970 og voru til 3.000 tonn af svokallaðri Afríkuskreið í landinu. Í fréttinni sagði að enn hefðu hins vegar engin leyfi verið veitt í Nígeríu til skreiðarinnflutnings.

Fyrirsögnin Skreið til Nígeríu var innblástursefni í Útvarpi Matthildi, sem starfaði á þessum tíma við miklar vinsældir. „Skreið til Nígeríu, skreið til Nígeríu,“ sagði í þættinum. „Hver skreið til Nígeríu?“

Hvort þessi fyrirsögn var kveikja að brandaranum skal ósagt látið. Líklegt er að samhljóða fyrirsögn hafi birst yfir fleiri fréttum.