Guð faðir, fyrirgef þeim
sem festu son þinn á kross
af heift, með hatursins keim,
þá hræsni' og Júdasar koss.
Svo grimm, með gremju í hug
þau grættu' og smánuðu hann,
af vonsku vísuðu' á bug
þeim vilja' er til með þeim fann.
Guð faðir, fyrirgef þeim
sem fylgja illskunnar slóð.
Til bjargar helsjúkum heim
rann heilagt frelsarans blóð,
hann þoldi þrautir og kvöl,
var þjáður okkur í hag.
Öll neyð, öll níðsla, allt böl
var neglt á krossinn þann dag.
Guð, faðir, fyrirgef þeim
sem flytja lyginnar mál
af snilld. Með tungunum tveim
þau tala' en ræðan er hál.
Þau ljúga þögul af list
og líta undan ef þarf
en þannig krossfesta Krist
og kasta rýrð á hans starf.
Guð faðir, fyrirgef þeim
sem finnst þau sjálf vera best,
með skýrum hneykslunarhreim
oft hiklaust tjá sig um flest,
þau geti' ei gert öðrum mein,
svo góð og umburðarlynd,
af ljótu löstunum hrein
og laus við galla og synd.
Guð faðir, fyrirgef þeim
sem fara' ei kærleikans leið,
jafnt hér sem úti um heim
þau hunsa annarra neyð.
Og Jesús, gefðu þeim grið
sem gorta' af líferni' og trú.
– Þú veist að „þau“ erum við
og vonin eina ert þú.
Ó, Jesús, miskunna mér
á minni kolröngu leið
því ef ég afneita þér
mun aftur herða' að mér neyð.
Mér nægir náð þín, Guðs son,
hún nærir sál, veitir hlíf.
Í þjáning þinni er von,
í þínum dauða er líf.
hagyrðingur.