Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Yfirlit yfir opinberar móttökur Reykjavíkurborgar og kostnað við þær var lagt fram á nýlegum fundi forsætisnefndar. Urðu þær tilefni til bókana fulltrúa minni- og meirihlutaflokka í nefndinni.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir, reið á vaðið og bókaði: „Það er beinlínis ógeðfellt hvernig borgarstjóri hagar sér á kosningaári. Í yfirliti yfir móttökur þá kemur fram að borgarstjóri er nú – korter í kosningar – að bjóða til móttöku 70 ára Reykvíkingum sem áttu/eiga afmæli 2020, 2021 og 2022. Kostar hver viðburður 1,6 milljónir króna og er því heildarkostnaður tæpar 5 milljónir. Borgarstjóri lítur á borgarsjóð sem sinn eigin kosningasjóð.“
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúum Viðreisnar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi gagnbókun:
„Síðastliðna áratugi, eða frá 1970, hefur embætti borgarstjóra heiðrað 70 ára Reykvíkinga með móttöku í Ráðhúsi Reykjavíkur. Móttakan hefur verið árleg en féll niður árin 2020 og 2021 vegna heimsfaraldurs. Þarna er um að ræða tækifæri til samtals við hóp sem annars hefði ekki haft tækifæri til, en það hefði verið ákaflega leiðinlegt ef þeir árgangar sem urðu 70 ára á þessum árum hefðu farið alveg á mis við þennan viðburð. Almenn ánægja hefur verið með móttökuna og er öllum borgarfulltrúum boðið að taka þátt – við teljum það gleðilega hefð sem vert er að halda í.“
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lagði fram svohljóðandi gagnbókun: „Eins og segir í fyrri bókun þá er það meiriháttar óeðlilegt að þessar móttökur hafi ekki verið haldnar að afloknum borgarstjórnarkosningum. Með því að halda þær korter í kosningar fékk borgarstjóri tækifæri til að snerta þrjá árganga með boðskorti og í framhaldi að halda veislu fyrir þá.“ Boðin voru haldin 13.-27. mars.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, lagði fram svohljóðandi bókun: „Fulltrúa Flokks fólksins finnst styrkur borgarinnar, 800.000 kr., á viðburðinn Women Political Leaders ansi hár og hefði viljað sjá að minnsta kosti hluta af þessum pening varið í annað, t.d. í þágu barna. Kostnaður við Hönnunarmars/Borgarlínu er rúmar 500.000. Hér er um að ræða hópa sem eru án efa aflögufærir og gætu greitt hluta af veitingum sjálfir. Þetta er vont að sjá þegar hugsað er til þeirra borgarbúa sem súpa nánast dauðann úr skel. Fólk sem nær engan veginn endum saman. Sjálfsagt er að styrkja viðburði af fjölbreyttu tagi en þetta er þó alltaf spurning um hóf og skynsemi og að ávallt sé reynt að fara sem best með útsvarsfé borgarbúa.“
Samkvæmt yfirlitinu voru opinberar móttökur sex talsins árið 2020 og kostnaður borgarinnar var 2,1 milljón. Væntanlega hefur Covid-faraldurinn haft áhrif á það hve fáar þær voru. Árið 2021 hafði þeim fjölgað í 12 og kostnaðurinn var 3,7 milljónir.