Íslandsbanki hefur ákveðið, eftir ítarlega greiningu á starfsemi salatframleiðandans VAXA, að flokka alla fjármögnun fyrirtækisins sem græn lán. Í tilkynningu frá VAXA kemur fram að Íslandsbanki hafi verið helsti lánveitandi VAXA síðustu ár. Aukin veiting grænna lána er eitt af sjálfbærnimarkmiðum Íslandsbanka en VAXA þurfti að uppfylla þröngt skilgreindan sjálfbærniramma bankans sem nær til verkefna í umhverfismálum, sjálfbærra verkefna í sjávarútvegi og verkefna sem styðja við félagslega uppbyggingu.
„Við erum Íslandsbanka þakklát fyrir að hafa trú á okkar sýn og við hlökkum til að vinna áfram með þeim að næstu stóru áföngum á leið okkar að bjóða fólki betra grænmeti á grænan og sjálfbæran hátt,“ segir Andri Björn Gunnarsson, stofnandi VAXA, í tilkynningunni.
VAXA er afurð á svonefndum lóðréttum landbúnaði, sem starfræktur er af fyrirtækinu Hárækt ehf. Stærsti hluthafi VAXA, með um 40 prósenta hlut, er félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, sem oftast eru kenndir við fjárfestingarfélagið Novator.
Þórey G. Guðmundsdóttir var nýlega ráðin fjármálastjóri VAXA og mun leiða uppbyggingu fjármálasviðs félagsins. Hún var áður framkvæmdastjóri fjármálasviðs Bláa lónsins um árabil. Þar áður var Þórey forstöðumaður hagdeildar Samskipa og á árunum 2004 til 2011 var hún forstöðumaður fjármálasviðs Straums fjárfestingarbanka.