Sigríður Pétra Þorvaldsdóttir fæddist 15. apríl 1931 á Skálmarnesmúla, Austur-Barðastrandarsýslu. Hún lést á Landspítalanum 15. mars 2022.
Foreldrar hennar voru Katrín G. Einarsdóttir, f. 2. október 1895, d. 18. maí 1978, og Þorvaldur Pétursson, f. 9. október 1887, d. 21. mars 1942.
Systkini hennar voru Ólína Kristín, f. 1921, d. 1987, Halldóra Finnlaug, f. 1929, d. 2007, og Þórður Ólafur, f. 1934, d. 1992.
Sigríður ólst upp á Skálmarnesmúla og í Flatey en fluttist til Reykjavíkur um fermingu ásamt móður sinni og systkinum. Hún byrjaði snemma að vinna og vann ýmis verkakvennastörf. Síðustu starfsárin starfaði hún á Múlalundi.
Börn Sigríðar eru: 1) Katrín Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðingur, f. 18. janúar 1950, faðir hennar er Guðjón Guðnason, f. 1930, d. 2005. Maki Katrínar er Guðm. Teitur Gústafsson, f. 5. mars 1950. Börn þeirra eru: a) Gústaf Elí, f. 1973, maki Kobe Davis-Teitsson og eiga þau þrjú börn, b) Katrín Dögg, f. 1979, maki Björn Grétar Stefánsson og eiga þau tvö börn, c) Kristinn Páll, f. 1988, maki Erla Sóley Frostadóttir og eiga þau eina dóttur. 2) Þorvaldur Sigurðarson vélstjóri, f. 11. apríl 1960, faðir hans er Sigurður Guðnason, f. 1931, d. 2013. Maki Þorvaldar er Lára Kristín Traustadóttir, f. 26. júlí 1968. Börn þeirra eru: a) Sigríður Lára, f. 1989, b) Guðrún Margrét, f. 1992, maki Kristinn Jón Arnarsson og eiga þau einn son, c) Guðmundur Trausti, f. 1995, d) Kristín Brynja, f. 2001.
Útför hefur farið fram í kyrrþey með nánustu aðstandendum.
Flýg ég og flýg
yfir furuskóg,
yfir mörk og mó,
yfir mosató,
yfir haf og heiði,
yfir hraun og sand,
yfir vötn og vídd,
inn á vorsins land.
Flýg ég og flýg
yfir fjallaskörð,
yfir brekkubörð,
yfir bleikan svörð,
yfir foss í gili,
yfir fuglasveim,
yfir lyng í laut,
inn í ljóssins heim.
(Hugrún)
Katrín.
Líf ömmu var ekki þrautalaust. Hún var bóndadóttir úr Flatey á Breiðafirði en fluttist til Reykjavíkur á unglingsárunum ásamt Katrínu móður sinni og systkinum eftir að Þorvaldur faðir hennar lést. Hún var námfús, mundi enn ljóðin sem hún lærði í barnaskóla og rifjaði reglulega upp hvernig þær Lauga frænka snigluðust í kringum skólann áður en þær hófu sína skólagöngu. Þær langaði að fá að vera með. Hana langaði að ganga menntaveginn en aðstæður buðu ekki upp á það á þeim tíma og amma þurfti ung að fara út á vinnumarkaðinn. Hún var þrældugleg og samviskusöm og sagði okkur oft sögur af hinum ýmsu störfum sem hún hafði unnið við í gegnum tíðina, svo sem í fiskvinnslu, sælgætisgerð og sem kaupakona í sveit. Það er kannski ekkert skrítið að henni hafi þótt nútímafólk komast nokkuð auðveldlega í gegnum lífið. Hún flutti oft á milli staða og landshluta sem unglingur og ung kona vegna eigin vinnu og Katrínar móður hennar. Um tíma bjó amma í bragga í Balbókampi í Laugarnesi hjá Línu systur sinni og fjölskyldu. Hún var nýbyrjuð að vinna í frystihúsi og hafði keypt sína fyrstu kápu þegar kviknaði í eina nóttina. Bragginn, ásamt öllu innbúi, brann til kaldra kola en öll sluppu þau ómeidd þökk sé Dodda, bróður ömmu. Þetta markaði djúp spor á líf hennar.
Amma var alltaf með puttann á púlsinum, tilbúin að ræða hin ýmsu mál og lá ekki á skoðunum sínum. Hún gat bæði verið hnyttin og beinskeytt í senn. Gerði grín en þó mest að sjálfri sér. Hún sagði skemmtilegar sögur frá lífinu í gamla daga og bar saman við nútímann, sem henni þótti stundum svolítið skrítinn. Á gamalsaldri lærði hún á samfélagsmiðla og notaði þá óspart til að fylgjast með nýjustu tískustraumum, heilsuráðum og málefnum líðandi stundar. Hún naut þess að fylgjast með fólkinu sínu á miðlunum og lét vita ef of langt hafði liðið frá síðustu myndbirtingum. Hún lagði mikið upp úr því að koma vel fyrir og fór til að mynda ekki út án þess að setja á sig bleikan varalit. Ekki einu sinni til að sækja póstinn í póstkassann. Við stelpurnar eigum minningar af því að hafa verið að gramsa í skápunum hjá ömmu, máta gamla hælaskó og prufa varaliti. Eitt af því sem veitti henni mikla gleði var að fara út og skoða mannlífið á Laugaveginum. Með göngugrindina gekk hún búðanna á milli og hvíldi sig á bekkjum bæjarins. Maður vissi það að ef amma svaraði ekki dyrabjöllunni voru líkur á því að maður fyndi hana á rölti í nágrenninu eða í Bónus, þar sem hún keypti alla jafna sjálf inn. Í þau skipti sem hún hafði félagsskap á röltinu var vinsælt að setjast niður á kaffihúsi og gæða sér á kaffibolla og sætabrauði.
Elsku amma Sigga.
Það er skrítið að hugsa til þess að nú séum við að kveðja þig í síðasta skipti. Einhvern veginn fannst okkur eins og þú yrðir alltaf hér með okkur. Við vonum að þér líði vel þar sem þú ert núna og við munum sakna þín.
Þín ömmubörn,
Sigríður (Sigga), Guðrún, Guðmundur og Kristín.
Góðar minningar sækja á eftir 54 ára viðkynningu, og er mér ofarlega í huga þakklæti fyrir það hvernig hún studdi okkur í uppeldi barna okkar þriggja. Þegar elsta barnið okkar Gústaf Elí fæddist var fæðingarorlof stutt, mamma hans í mikilli vinnu og ég í námi. Amma passaði og Valli frændi hjálpaði til þangað til Gústaf byrjaði í leikskóla. Þegar hann byrjaði í grunnskóla fylgdi hún honum fyrstu skrefin. Hún kom heim til okkar og gætti hans þangað til skóladagur hófst. Hún passaði einnig Katrínu Dögg og Kristin Pál.
Amma Sigga bar hlýjar tilfinningar til æskuslóðanna í Flatey á Breiðafirði og naut þess að heimsækja þær. Gaman var að ganga með henni þar, skoða og hlusta á hana segja frá lífinu þar á árum áður. Hún var minnug og mundi hlutina marga og sögur frá uppeldisárum sínum þar.
Hún naut þess að ferðast innanlands og eigum við góðar minningar um ferðir með henni þar sem hún hafði næmt auga fyrir því sem fyrir augu bar og óhrædd og alltaf til í eitthvað nýtt og spennandi.
Amma Sigga fór í fyrstu utanlandsferðina 60 ára gömul og fór eftir það oft í sólina, heimsótti Gústa til Englands og í mæðgnaferð til Kaupmannahafnar. Og hún dáðist að kurteisi Spánverjanna og góðu aðgengi fyrir eldra fólk með göngugrind í Barcelona.
Amma Sigga bjó í miðbæ Reykjavíkur alla tíð, síðustu árin á Lindargötunni. Hún tók þátt í ýmsum námskeiðum, meðal annars leirmótun, postulínsmálun og glerskurði og bjó til marga fallega hluti sem afkomendur hennar eiga til minningar um hana.
Valli sonur hennar kom henni á tölvuöld, keypti handa henni borðtölvu og ipad og hún fylgdist vel með hvort sem um var að ræða fréttir af pólitíkinni, heimsmálunum, nýjustu fréttum af heilsueflingu eða tískunni. Einnig fylgdist hún grannt með börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum á samfélagsmiðlum, en hún átti miklu barnaláni að fagna.
Ein góð kona sagði við mig: „Hún er alltaf svo vel uppfærð hún tengdamóðir þín.“
Amma Sigga var mjög sjálfstæð og vildi ekki láta mikið hafa fyrir sér. Hún var dugleg að fara út að ganga um Laugaveginn og miðbæinn sem voru hennar staðir. Hún saknaði fjölbreytileikans í verslun og mannlífi á Laugaveginum sem hún þekkti svo vel eftir 70 ára búsetu í miðbænum og kunni ekki alveg að meta allar breytingar sem hafa átt sér stað á síðustu árum.
Ég er þakklátur fyrir að hafa verið samferða ömmu Siggu og allt sem hún gerði fyrir okkur.
Blessuð sé minning hennar.
Teitur Gústafsson.