Jóhann Már Maríusson, verkfræðingur og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, er látinn, 86 ára að aldri. Jóhann Már var fæddur 16. nóvember 1935 í Reykjavík.

Jóhann Már Maríusson, verkfræðingur og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, er látinn, 86 ára að aldri.

Jóhann Már var fæddur 16. nóvember 1935 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Vigdís Eyleif Eyjólfsdóttir húsfreyja og Maríus Jóhannsson verkamaður.

Jóhann Már var stúdent frá MR og stundaði að því búnu spænskunám á Spáni. Hann lauk fyrrihlutaprófi í verkfræði frá Háskóla Íslands 1959 og síðan prófi í verkfræði frá Tækniskóla Danmerkur árið 1962.

Að loknu námi starfaði hann sem verkfræðingur í Kaupmannahöfn og hjá Vita- og hafnarmálastjórn. Stofnaði og rak ásamt fleirum verkfræðistofuna Hönnun hf. og var verkfræðingur hjá Rögnvaldi Þorlákssyni.

Jóhann Már kom beint að virkjanaframkvæmdum árið 1966 þegar hann var eftirlitsverkfræingur við virkjun Þjórsár og fór í framhaldi af því til starfa hjá Landsvirkjun árið 1970, fyrst sem deildarverkfræðingur og síðan aðstoðaryfirverkfræðingur og yfirverkfræðingur frá 1977. Hann var ráðinn aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar árið 1983 og gegndi því starfi til starfsloka 2002.

Hann sat í ýmsum nefndum í tengslum við starf sitt og var formaður Verkfræðingafélagsins 1994-1995. Hann var gerður að heiðursfélaga Verkfræðingafélagsins 2007. Hann skrifaði fjölmargar greinar um orkumál. Hann var forseti Rotaryklúbbsins Reykjavík-Austurbær 2002 til 2003. Jóhann Már var unnandi ljóða og birtust ljóð eftir hann í Lesbók Morgunblaðsins.

Eftirlifandi kona hans er Sigrún Gísladóttir lyfjafræðingur. Þau eiga fjögur börn og tólf barnabörn.

Börn þeirra eru Gísli Másson, framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, Guðrún Másdóttir tölvunarfræðingur og Vigdís Másdóttir víóluleikari.