Afli Vel hefur veiðst af þorski víða við landið að undanförnu.
Afli Vel hefur veiðst af þorski víða við landið að undanförnu. — Morgunblaðið/Hari
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Það er árvisst að menn tali um mikla þorskgengd þegar kemur að hrygningartíma þorsks,“ sagði Einar Hjörleifsson, sjávarlíffræðingur á botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnununar.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Það er árvisst að menn tali um mikla þorskgengd þegar kemur að hrygningartíma þorsks,“ sagði Einar Hjörleifsson, sjávarlíffræðingur á botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnununar. Starfssvið hans snýr að stofnmati þorsks og aflareglum.

Pétur Pétursson, skipstjóri á Bárði SH, sagði í Morgunblaðinu í gær að það hefði verið mokveiði á þorski í Breiðafirði og allt í kringum landið. Hann kvaðst trúa því að í Breiðafirði væri ein milljón tonna af þorski og kvaðst byggja það mat á 40 ára reynslu.

„Við getum verið sammála um það, ég og skipstjórinn, að hrygningarstofninn er örugglega nálægt sögulegu hámarki miðað við síðustu fjörutíu ár. Okkur greinir kannski meira á um hvað er mikið af þorski í Breiðafirði,“ sagði Einar.

Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar er heildarstofn þorsks á Íslandsmiðum um 950 þúsund tonn af fjögurra ára þorski og eldri. Þorskurinn verður kynþroska 7-8 ára gamall og var hrygningarstofninn metinn vera um 360 þúsund tonn í byrjun síðasta árs. Þorskur hrygnir að segja má hringinn í kringum landið, en langmest fyrir Suður- og Vesturlandi.

Þorskgengd hefur aukist frá árunum 2009-2010 og náði stofninn hámarki á árunum 2015-2017 eða þar um bil, að sögn Einars. Þorskstofninn var metinn stærstur árið 2016 þegar matið sagði stofn fjögurra ára þorsks og eldri vera um 1.200 þúsund tonn.

Einar segir að nú standi yfir stofnúttekt á þorski þar sem öll þessi mál verða skoðuð. Ráðgjöf er væntanleg um miðjan júní.

Netarall og hrygningarstopp

Netarall hófst 29. mars og tóku sex bátar þátt í því. Niðurstöður liggja ekki fyrir. Allur fiskurinn er lengdarmældur og hluti aflans er einnig aldursgreindur. Greining á aldri tekur langan tíma, enda er um nokkuð gamlan fisk að ræða og marga aldurshringi í kvörnunum.

Hrygningarstopp, þegar þorskur, skarkoli, blálanga og steinbítur eru friðuð á hrygningartíma á tilteknum svæðum, er gert í apríl. Misjafnt er eftir svæðum hvenær hrygningarstoppið hefst og hvenær því lýkur.