Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur áhuga á að láta smíða ný umhverfisvænni skip til veiða við suðurströndina í stað þriggja sem félagið gerir út, en það eru togarinn Brynjólfur VE-3 sem smíðaður var 1987, togarinn Drangavík VE-80, smíðaður 1991, og nóta- og netabáturinn Kap II sem var smíðaður 1967. Ákvæði laga eru hins vegar sögð hindra framgang áformanna.
Þetta sagði Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar, á aðalfundi félagsins sem haldinn var á miðvikudag. Í færslu á vef félagsins um fundinn segir að það sé vilji stjórnar og stjórnenda að „nýju skipin verði hönnuð og smíðuð með mikinn orkusparnað í huga og markmið um orkuskipti í sjávarútvegi og græn viðhorf í loftslagsmálum að leiðarljósi. Miðað er við að skipin geti gengið fyrir „græna eldsneytinu“ metanóli.“
Þessi áform eru þó háð því að ákvæðum laga um fiskveiðar verði breytt þannig að heimilt verði að stunda veiðar á metnólskipum. „Lagaákvæði um svokallaðan aflvísi eru með öðrum hindrun í vegi orkuskipta í sjávarútvegi og grænnar þróunar, það er að segja lögfestar reikniformúlur um vélarafl og þvermál skrúfu fyrir togskip að hámarki 29 eða 42 metrar að lengd til veiða í landhelginni,“ sagði Guðmundur Arnar á fundinum.
Besta afkoma í sögu félagsins
Hafinn er undirbúningur að því að reisa nýtt hús undir botnfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar. „Innan fárra vikna liggja fyrir frumhugmyndir að hönnun, skipulagi og sjálfum framkvæmdunum. Gömul hús verða rifin og ný byggð í áföngum svo unnt verði að halda fiskvinnslu gangandi allan tímann,“ segir í færslunni.Samkvæmt ársreikningi skilaði Vinnslustöðin hagnaði upp á 15,1 milljón evra, eða um 2,1 milljarð króna, og er afkoman árið 2021 sú besta í sögu félagsins og var samþykkt að greiða hluthöfum 850 milljónir króna í arð.