Þegar Rússar hörfuðu frá Bútsja kom í ljós umfang ódæðisverka rússneska hersins í Úkraínu. Bútsja er lítil borg í grennd við Kænugarð. Rússneskir hermenn höfðu borgina á sínu valdi í nokkrar vikur og eirðu engu. Aftökur, pyntingar og nauðganir voru daglegt brauð og almennir borgarar hafa verið stráfelldir.
Rússar hafa reynt að halda því fram að þeir séu hafðir fyrir rangri sök, en gervihnattamyndir, sem teknar voru áður en rússneski herinn hörfaði frá Bútsja, sýna að svo er ekki. Á þeim sést að lík lágu á víð og dreif um götur borgarinnar áður en Rússarnir fóru.
Fjölmiðlar eru nú farnir að draga upp mynd af því sem gerðist í Bútsja á þeim fjórum vikum, sem Rússarnir höfðu borgina á valdi sínu og þegar er farið að tala um að nafn borgarinnar verði samnefnari fyrir stríðsglæpi Rússa líkt og Srebrenica fyrir tilraunina til þjóðarmorðs í Bosníustríðinu.
Konur eru farnar að greina frá skipulögðum nauðgunum. Karlar undir sextugu áttu á hættu að vera teknir af lífi.
Í kjallara í húsi einu voru blóðpollar, skotgöt á veggjum og skothylki á víð og dreif. Þar fundust fimm lík. Hendur þeirra voru bundnar aftur fyrir bak og á líkömunum mátti sjá ummerki um pyntingar, brotin nef, opin sár og skotsár á fótum.
Anatolí Fedoruk hefur verið borgarstjóri í Bútsja í 20 ár. Hann segir að 290 íbúar borgarinnar hafi verið skotnir. Hann er ekki að tala um þá sem urðu fyrir eldflaugum og stórskotaliðsárásum heldur þá sem voru drepnir með byssukúlum. Fedoruk segir að hernámsliðið hafi verið með lista með 40 til 50 nöfnum manna, sem hefðu barist í Donbas og fjölskyldna þeirra, og stjórnmálamanna. Þar á meðal var nafnið hans, reyndar vitlaust stafsett. Kannski varð það honum til lífs.
Bútsja virðist síður en svo vera einsdæmi.
Í Borodíanka, sem einnig er rétt fyrir utan Kænugarð, var aðkoman líka hrollvekjandi. „Þeir eru byrjaðir að fara í gegnum rústirnar í Borodíanka,“ sagði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, í daglegu ávarpi sínu á fimmtudag. „Þar er hryllingurinn enn meiri, þar eru fórnarlömb rússneska hernámsliðsins jafnvel fleiri.“
Árás Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, á Úkraínu er óverjandi. Virðing Pútíns fyrir mannslífum er engin. Pútín dreymir um að endurreisa Rússaland í anda einhverra hugmynda um veldi og mátt sem hann sér í hillingum. Honum hefur tekist hið gagnstæða. Orðspor Rússlands er í rúst og með hverri sprengju sem fellur í Úkraínu, hverju morði sem er framið, fellur nýr blettur á orðstír Pútíns.