Frambjóðendur Valgarður Lyngdal Jónsson leiðir lista Samfylkingar, Ragnar Baldvin Sæmundsson fer fyrir Framsókn og Líf Lárusdóttir er nýr oddviti Sjálfstæðisflokks. Valgarður og Ragnar fara fyrir núverandi meirihluta.
Frambjóðendur Valgarður Lyngdal Jónsson leiðir lista Samfylkingar, Ragnar Baldvin Sæmundsson fer fyrir Framsókn og Líf Lárusdóttir er nýr oddviti Sjálfstæðisflokks. Valgarður og Ragnar fara fyrir núverandi meirihluta. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Andrés Magnússon Stefán E. Stefánsson Það er gott samkomulag í bæjarstjórn Akraness og rík hefð fyrir samráði þvert á flokkslínur. Þar eru nú Samfylking og Frjálsir með Framsókn í meirihluta eftir að hreinn meirihluti sjálfstæðismanna var...

Dagmál

Andrés Magnússon

Stefán E. Stefánsson

Það er gott samkomulag í bæjarstjórn Akraness og rík hefð fyrir samráði þvert á flokkslínur. Þar eru nú Samfylking og Frjálsir með Framsókn í meirihluta eftir að hreinn meirihluti sjálfstæðismanna var felldur. Þótt menn gangi óbundnir til kosninga er ekkert sem bendir til annars en að meirihlutasamstarfið haldi áfram fái framboðin tilskilinn fjölda bæjarfulltrúa.

Líf Lárusdóttir er nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Hennar bíður það verkefni að koma flokknum aftur í meirihluta. Hún segist munu leggja aukna áherslu á að laða fyrirtæki til bæjarins. Mikilvægt sé að efla atvinnuuppbyggingu og að tryggja störf á svæðinu fyrir þann mikla fjölda fólks sem vill búa í bænum. Líf telur að til þess þurfi heilsteyptari stefnu og framtíðarsýn.

Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað í bæjarfélaginu síðustu ár og hefur m.a. verið unnið að því að koma upp nýju iðnaðarhverfi sem byggist á grænum áherslum.

Valgarður Lyngdal Jónsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir að uppbyggingin hafi gengið mjög vel en hann varar við því að fara út í aðgerðir sem felist í að gefa afslátt á gatnagerðargjöldum eða setja „lóðir á brunaútsölu“. Miklu skiptir að laða réttu fyrirtækin til bæjarins, sem hafi raunverlega burði til þess að vaxa og efla samfélagið. Ragnar Baldvin Sæmundsson situr í bæjarstjórn og leiðir lista framsóknarmanna. Hann segir að enn verði gefið í varðandi þessa uppbyggingu á komandi mánuðum. Ráðist verði í nýjar gatnaframkvæmdir í hinu nýja iðnaðarhverfi í sumar og á því svæði verði sérstök áhersla lögð á matvælaframleiðslu.

„Við erum í viðræðum við þrjú mjög öflug fyrirtæki á því sviði,“ upplýsir hann. Ragnar bendir á að bæjarfélagið hafi vaxið að mannfjölda um 2,1% að meðaltali undanfarin ár. Tekist hafi að halda í við þá þróun varðandi uppbyggingu innviða. Áfram þurfi að tryggja að þjónustan við bæjarbúa sé góð og rýrni ekki. Bæjarfulltrúar þurfi að vinna fyrir núverandi bæjarbúa en ekki þá sem mögulega muni í framtíðinni flytjast á svæðið. Allt að 5% fjölgun sé viðráðanleg, en allt umfram það muni valda vanda og vaxtarverkjum.