Færeyingar koma vel frá COVID-19-faraldrinum. Atvinnuleysi er aðeins 0,19% og þá vantar meira vinnuafl. Fiskútflutningur gengur vel. Hann stendur undir 90% af útflutningstekjunum, þar vegur útflutningur á eldislaxi þyngst eða 42% árið 2021. Færeyingar kalla laxinn sinn kampavín eldislaxa og selja hann á hæsta verði.
Gæði laxins og stöðu hans á markaði má ekki síst rekja til þess að færeyska regluverkið mælir fyrir um algjöran rekjanleika frá hrognum til útflutnings, þar á meðal um fóðrið sem notað er við fiskeldið. Á þennan hátt er tryggt að neytandinn hafi vitneskju um gæði og sjálfbærni færeysks fiskeldis.
Nú í vikunni var Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í Færeyjum ásamt fulltrúum íslenskra fiskeldisfyrirtækja og embættismönnum. Kynntu Íslendingarnir sér fiskeldi Færeyinga og ræddu samvinnu þjóðanna á þessu sviði. Á vefsíðu matvælaráðuneytisins segir Svandís: „Með því að fjárfesta í rannsóknum í greininni hafa Færeyingar lagt grunn að gríðarlegum framförum.“
Rekjanleikinn verður sífellt mikilvægari þáttur við framleiðslu allra matvæla. Færeyingar fullyrða ekki að þeir framleiði kampavíns-lax nema vegna þess að þeir geta sannað að á öllum ferli fisksins séu hágæði tryggð. Íslenskt fyrirtæki á hlut að þessari gæðakeðju. Laxahrogn til eldis í Færeyjum koma frá Íslandi. Hér sér Benchmark Genetics öllum laxeldisstöðvum fyrir laxahrognum og er eina fyrirtækið á Íslandi sem selur laxahrogn til annarra landa.
Þegar Færeyingar ræða nýja strauma meðal viðskiptavina sinna benda þeir á að vegna gagnrýni á útblástur flugvéla setji sumir fyrir sig að kaupa lax sem flogið hefur verið með langar leiðir frá verkunarstað til veitingastaðar. Aðdráttarafl sjávarafurða og hátt verð þeirra ræðst mjög af því að um hreina sjálfbæra vöru er að ræða með lítið kolefnisspor.
Eftir ágreining Færeyinga við ESB vegna makrílkvóta sættu Færeyingar útilokun á ESB-fiskmarkaði sem varð til þess að þeir juku viðskipti sín við Rússa. Færeyingar héldu þessum tengslum eftir innrás Rússa á Krímskaga vorið 2014. Lögmaður Færeyja fór til fundar við rússneska sjávarútvegsráðherrann og taldi viðræður við hann hafa skilað „ótrúlegum“ árangri. Rússar hefðu áhuga á „strategísrki samvinnu“ án þess að efni hennar væri nánar lýst. Bæði í Danmörku og Færeyjum sætti lögmaðurinn harðri gagnrýni vegna samkomulagsins við Rússa. Hann varðist með þeim orðum að þetta væru viðskipti og Færeyingar neyddust til að finna nýja markaði vegna viðskiptabanns ESB.
Ári síðar opnuðu Færeyingar sendiskrifstofu í Moskvu. Dró lögmaðurinn þá skil milli þess að í öryggismálum ættu Færeyingar samleið með NATO en þeir yrðu að gæta viðskiptahagsmuna sinna og markaða.
Færeyingar hafa frá 1977 haft gagnkvæman fiskveiðisamning við Rússa sem veiða í færeyskri lögsögu en færeysk skip í Barentshafi. Rússneskir togarar athafna sig frá færeyskum höfnum, landa þar afla sem fluttur er til vinnslu í Rússlandi. Ekkert af afla skipanna er unnið í Færeyjum, þar er aðeins um umskipun að ræða. Rússar greiða fyrir vörur og þjónustu og kaupa olíu. Færeysk stjórnvöld útilokuðu ekki rússnesk skip frá höfnum sínum árið 2014.
Nú fimmtudaginn 7. apríl hafði færeyska ríkisútvarpið eftir Janis av Rana, færeyska utanríkisráðherranum, að bráðlega kynni að verða rætt um að útiloka rússnesk skip frá færeyskum höfnum. Innan ESB og í Noregi könnuðu yfirvöld hvort grípa ætti til þessa ráðs í þeim löndum. Janis av Rana sagðist vona að hafnbannið, kæmi til þess, yrði ekki til þess að raska fiskveiðisamningnum við Rússa, kynni að leiða til rányrkju færi allt á versta veg.
Nokkrum dögum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar ákvað stærsta fiskeldisfyrirtæki Færeyja, Bakkafrost, að hætta að selja lax til viðskiptavina sinna í Rússlandi. Á árinu 2021 seldi fyrirtækið 10% af laxi sínum þangað. Forstjóri fyrirtækisins telur að auðvelt verði að selja laxinn, sem annars færi til Rússlands, á öðrum mörkuðum fyrirtækisins.
Landsstjórn Færeyja segist ekki ætla að banna viðskipti við Rússa á meðan slíkt bann er ekki sett af vestrænum ríkjum.
Undir lok sjötta áratugarins var reist ratsjárstöð í þágu NATO á Sornfelli skammt frá Þórshöfn. Var hún starfrækt til ársins 2007. Nú er rætt um að endurreisa hana og skýrði Janis av Rana frá því í ágúst 2020 að danski utanríkisráðherrann hefði kynnt sér áform Dana um endurnýjun stöðvarinnar.
Endurnýjun ratsjárkerfisins var til umræðu í vikunni á fundum í Þórshöfn. Umræður Færeyinga um málið snúast annars vegar um samskipti um öryggis- og varnarmál innan Danska konungdæmisins og hins vegar um mat á sviði öryggismála. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun er mikill meirihluti Færeyinga hlynntur NATO og einnig að ratsjárstöðin sé starfrækt.
Skýr rök eru fyrir endurnýjun ratsjárinnar í Færeyjum til að tryggja sem best eftirlit í lofti á milli Íslands og Færeyja. Í heimsókn í rammgerð mannvirki stöðvarinnar á dögunum kom fram að þegar slökkt var á ratsjánni árið 2007 hefði 10 mínútum síðar verið hringt frá Íslandi með ábendingu um að geisli stöðvarinnar hefði horfið.
Nágranna- og frændþjóðirnar í Norður-Atlantshafi geta mikið lært hvor af annarri. Á sama tíma og við lítum nú til Færeyinga til að bæta starfsumhverfi íslenskra fiskeldisfyrirtækja vilja þeir kynna sér lausnir hér í ratsjármálum til að tryggja sem best sameiginlegt öryggi okkar.
Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is