Árni Tómas Ragnarsson
Árni Tómas Ragnarsson
Eftir Árna Tómas Ragnarsson: "Það eru því lögmál villta vestursins sem gilda við sjúkratryggingar íslensks almennings, þær eru frjálsar og alls ekki í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda."

Það hefur verið opinber stefna íslenskra stjórnvalda um árabil að Íslendingar eigi að fá heilbrigðisþjónustu á kostnað hins opinbera; ríkiskassans (sjúkrahúsin t.d.) eða Sjúkratrygginga Íslands. Sú stefna hefur kristallast fyrst og fremst í andstöðu Sjúkratrygginga við starf Klíníkurinnar í Ármúla, sem er einkarekin og fá skjólstæðingar hennar ekki niðurgreiddan kostnað við heilbrigðisþjónustu þar eins og annars staðar.

En þjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðilækna á stofum er margfalt stærra verkefni, læknarnir skipta hundruðum og komur til þeirra eru mörg hundruð þúsund á hverju ári. En stjórnmálamenn hafa haft illan bifur á sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum og hafa því fyrirskipað Sjúkratryggingum að semja ekki um kaup og kjör við sérfræðingana, sem hafa nú verið utan samnings í um fjögur ár. Meðan samningar voru við lýði skuldbundu sérfræðingar sig til að innheimta ekki önnur komugjöld en um var samið við sjúkratryggingar.

Nú hafa samningar ekki verið í gildi í þessi fjögur ár og því geta sérfræðingarnir rukkað skjólstæðinga sína eins og þeim sýnist. Ýmsir þeirra hafa notfært sér þetta og taka mishá gjöld af skjólstæðingum sínum umfram það sem gömlu samningarnir kváðu á um, stundum býsna há gjöld, sem koma hvergi opinberlega fram og nýtast ekki fólki til að leggja inn á afsláttarreikning sinn hjá sjúkratryggingum. Aðrir læknar eins og ég sjálfur rukka eftir gamla samningnum og hef ég því ekki fengið greiðsluhækkun fyrir verk mín eins og aðrir landsmenn í fjögur ár.

Það eru því lögmál villta vestursins sem gilda við sjúkratryggingar íslensks almennings, þær eru frjálsar og alls ekki í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda.

Við það bætist að sjúkratryggingar almennings gagnvart sérfræðilæknisþjónustu hafa verið í skötulíki árum saman, þær greiða niður þjónustu sérfræðilækna langtum minna en t.d. þjónustu heilsugæslulækna, sá sem fær þjónustu heilsugæslunnar greiðir aðeins um 800 kr. fyrir komuna, en fari hann til sérfræðilæknis með sama vandamál gæti greiðslan farið upp í 10-20 þúsund krónur.

Ástæðan er sú að tryggingarnar greiða á pólitískum forsendum niður hið fyrrnefnda um 10-20 þúsund krónur en hið síðarnefnda með kannski aðeins eitt þúsund krónum og láta skjólstæðinginn sjálfan greiða rest.

Niðurstaðan er því sú að það ríkir annaðhvort stefnuleysi og/eða yfirgengilegt ranglæti í kerfinu, í öllu falli gilda lögmál villta vestursins gagnvart notendum íslensks heilbrigðiskerfis. Það sætir undrum að íslenskur almenningur skuli láta þessa óstjórn og ranglæti ganga yfir sig.

Höfundur er læknir.

Höf.: Árna Tómas Ragnarsson