Magnús Andrés Jónsson fæddist 22. október 1933. Hann lést 24. mars 2022. Útför Magnúsar fór fram 5. apríl 2022.

Leiðir okkar Magnúsar lágu saman á haustdögum árið 1979. Þá sótti hann um stöðu deildarstjóra á vinnustofum sem reknar höfðu verið á Vistheimilinu Sólborg um nokkurt skeið. Undirritaður var þá framkvæmdastjóri heimilisins. Vinnustofunum var ætlað að veita hluta íbúanna og íbúum sambýla vinnuþjálfun. Starfsemi þeirra þótti hafa tekist nokkuð vel en verkefnin voru einhæf og vélakostur takmarkaður.

Tilgangurinn með ráðningu Magnúsar var m.a. sá að fela honum að afla nýrra verkefna, auka fjölbreytni þeirra og tryggja starfseminni traustari rekstrargrundvöll. Magnús sinnti því hlutverki ötullega og fljótlega vöknuðu hugmyndir meðal yfirmanna heimilisins um að hefja undirbúning að stofnun verndaðs vinnustaðar sem tæki við hlutverki vinnustofanna. Stjórn heimilisins var því samsinna og fékk hugmyndin alls staðar góðar undirtektir, þar á meðal hjá stjórnvöldum, sem var forsenda þess að þoka málum áfram. Ákveðið var að byggja 600 fermetra hús yfir starfsemina í tveimur áföngum. Fyrri áfanganum lauk haustið 1981 og hófst starfsemi í húsinu þá strax.

Magnús tók við forstöðu þessa nýja vinnustaðar. Það var honum og samstarfsfólki hans í Iðjulundi (nafn hins nýja vinnustaðar) þó nokkur áskorun. Á ótrúlega skömmum tíma tókst að finna honum fjölbreytt verkefni sem hentuðu vel og auka við vélakost í þeim tilgangi að nýta tækni til að vinna flóknari þætti í framleiðsluferlinu. Þannig urðu til verkefni fyrir getuminni skjólstæðinga Iðjulundar eins og við frágang, pökkun o.fl. Það skipti svo ekki minnstu máli að flestum þeirra sem sóttu vinnu til staðarins þótti það nokkur upphefð og það jók þeim kjark og færni að sækja vinnu út fyrir heimili sitt. Eitt verkefni skal sérstaklega nefnt í þessu samhengi en það var lóðasláttur fyrir húsfélög og fyrirtæki. Þá lærðu þó nokkrir úr hópi þeirra fötluðu að aka sláttutraktorum og skiluðu verki sínu með sóma. Það vakti mikla athygli meðal almennings og gerði hópinn sýnilegan.

Nú þegar komið er að leiðarlokum vil ég þakka Magnúsi fyrir góð kynni og samfylgd til margra ára. Hann ásamt samstarfsfólki sínu lagði sitt af mörkum til að bæta kjör þeirra sem þroskaheftir töldust. Hafi þau öll bestu þakkir fyrir. Um leið vottum við Elsa ekkju hans, Guðrúnu H. Gunnarsdóttur, og fjölskyldu okkar innilegustu samúð.

Bjarni Kristjánsson.