Jóhann Kristinsson barítón og Ammiel Bushakevitz píanóleikari koma fram í tónleikaröðinni Syngjandi í Salnum á morgun, sunnudag, kl. 19.30 og halda ljóðatónleika.
„Jóhann Kristinsson barítón er að festa sig í sessi sem einn af áhugaverðustu söngvurum ungu kynslóðarinnar og þá sérstaklega sem ákaflega vandaður ljóðasöngvari,“ segir í tilkynningu og að hann hafi fengið einn eftirsóttasta meðleikara sinnar kynslóðar, Ammiel Bushakevitz, til liðs við sig við flutning á sönglögum sem þeim séu mjög hjartkær. Þar á meðal sé ljóðaflokkurinn Tólf ljóð eftir Justinus Kerner, Op. 35 eftir Robert Schumann, ljóðaflokkurinn Six Songs from A Shropshire Lad eftir George Butterworth við ljóð A.E. Housman og íslensk sönglög eftir Þórarin Guðmundsson, Atla Heimi Sveinsson og Árna Thorsteinsson.
Syngjandi í Salnum er ný tónleikaröð sem hóf göngu sína í febrúar og listrænn stjórnandi hennar er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir söngkona.