[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is Æfingin hefur gengið alveg ljómandi vel og allt sem við höfum komið að hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir okkur Íslendingana,“ segir Einar H.

Baksvið

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Æfingin hefur gengið alveg ljómandi vel og allt sem við höfum komið að hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir okkur Íslendingana,“ segir Einar H. Valsson, skipherra nýja varðskipsins Freyju, um varnaræfinguna Norður-Víking 2022 á Íslandi sem hófst 2. apríl og stendur yfir til 14. apríl nk. Varnaræfingin Norður-Víkingur grundvallast á ákvæðum varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951 og hefur verið haldin reglulega frá árinu 1982, en féll niður í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.

Farið er yfir varnir sjóleiðanna í kringum landið á æfingunum og varnir mikilvægra mannvirkja og öryggisinnviða, til dæmis fjarskiptakapla. Fyrirhuguð er lending bandarískra landgönguliða við Miðsand í Hvalfirði 11. apríl og gætu þá orðið einhverjar takmarkanir á umferð um svæðið.

„Við höfum tekið þátt í æfingunni með öðrum skipum alla vikuna. Við byrjuðum á mánudaginn og settum út hérna suður af landinu gúmmíbát sem var notaður til leitaræfinga fyrir flugvél og svo enduðum við á því að nýta bátinn í leitaræfingu fyrir okkur sjálfa.“ Æfingasvæðið hefur aðallega verið suður af Reykjanesinu og úti á Faxaflóa og skipin sem Íslendingarnir hafa verið að vinna með eru frá Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og Noregi.

Gott að læra betur á Freyjuna

„Það hefur verið mjög fín stemning. Við höfum notið góðs af því að hafa þessar samstarfsþjóðir með okkur, og ekki síst til að læra á þetta nýja skip, Freyjuna. Við höfum verið í samæfingum í aðförum og uppgöngum í skip með samstarfsþjóðum okkar að ógleymdum dráttaræfingum, þar sem við höfum verið að æfa aðför og líkja eftir því að taka skip í tog.“

Einar segir mikilvægt að styrkja og auka samstarfið milli þessara þjóða og samræma aðferðafræðina sem notuð er í varnarstarfi. „Við erum til dæmis að læra af samstarfsþjóðunum um uppgang og yfirtöku á skipum og fyrir okkur hér á Íslandi er mikilvægasti þátturinn leit, björgun, aðför og aðstoð.“

Einar segir að samvinnuþjóðirnar séu helst að læra á þessar sérstöku aðstæður á hafsvæðinu við Íslandsstendur. „Þetta er erfitt hafsvæði að vinna á, bæði vegna kulda og hafstrauma. Það er talsvert öðruvísi aðferðafræði við það að fara um borð í skip hér, miðað við öldur og sjólag sem er mismunandi milli hafsvæða.“

Hlé á æfingu vegna veðurs

Sem dæmi um óvanalegar aðstæður segir hann að á þriðjudaginn hafi þeir verið að æfa aðför að skipi. „Við áttum að stöðva það sem átti að vera skip grunað um að flytja ólöglegan varning til landsins. En við urðum að gera hlé á æfingunni af því að veður leyfði ekki að við færum með mannskap milli skipa. Við kláruðum svo æfinguna í gær, tveimur dögum seinna. Það er bara svolítið öðruvísi veðurfar hérna en í Miðjarðarhafinu og það þarf alltaf að taka með í reikninginn.“

Einar segir að Ísland komi eðlilega minna að hernaðarþættinum en hinar þjóðirnar. „Við erum jú herlaus þjóð. En þetta er hluti af varnarsamningnum milli þjóðanna og við Íslendingar stólum svolítið á að þessar vina- og nágrannaþjóðir aðstoði okkur ef heimsmálin fara að snúast á einhvern veg sem við viljum ekki sjá.“

Engin tengsl við Úkraínu

„Heræfingin sem er núna í gangi í landinu hefur ekkert að gera með Úkraínustríðið, enda eru þessar æfingar skipulagðar með miklum fyrirvara,“ segir Albert Jónsson, sérfræðingur í varnarmálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi. „Hún er þáttur í tvíhliða varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951.“ Hann bætir við að eftir 2014 hafi orðið ákveðin endurkoma á samstarfi Bandaríkjanna og Íslands þegar Bandaríkjaher fór í vaxandi mæli að nota aftur aðstöðu á Keflavíkurflugvelli á sama tíma og samskipti NATO og Rússlands hafa versnað vegna Úkraínu.

„En það er með mun veigaminni hætti en var á tímum kalda stríð ins.“