Eftirlit Magnús Jónsson kveðst ekki sáttur við gjaldtöku Fiskistofu.
Eftirlit Magnús Jónsson kveðst ekki sáttur við gjaldtöku Fiskistofu.
Magnús Jónsson, formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar og fyrrverandi veðurstofustjóri, er ósáttur við að Fiskistofa fái að innheimta gjald fyrir móttöku aflaupplýsinga og hefur sent Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og matvælaráðuneytinu...

Magnús Jónsson, formaður Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar og fyrrverandi veðurstofustjóri, er ósáttur við að Fiskistofa fái að innheimta gjald fyrir móttöku aflaupplýsinga og hefur sent Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og matvælaráðuneytinu bréf þar sem skorað er á stjórnvöld að falla frá gjaldtökunni.

Fiskistofa hafði tilkynnt að fallið yrði alfarið frá móttöku aflaupplýsinga í gegnum eigið smáforrit og vefviðmót frá 1. apríl, en í kjölfar mikillar umræðu ákvað matvælaráðuneytið að breyta reglugerð um skráningu og rafræn skil aflaupplýsinga. Þannig var Fiskistofu gert að taka við upplýsingum á þar til gerðu eyðublaði með rafrænum hætti, eða með sérstöku leyfi Fiskistofu á pappír. Þjónustugjald vegna rafrænnar aflaskráningar var ákveðið 898 krónur fyrir hvern dag og vegna skila á pappír 2.050 krónur.

„Verð ég að lýsa óánægju með og þó ekki síður undrun á að opinber stofnun/stjórnvöld hafi mótað þá stefnu að láta þá aðila sem afla gagna fyrir stofnunina/stofnanirnar greiða fyrir slík gögn,“ skrifar Magnús í bréfinu, sem Morgunblaðið hefur undir höndum. „Í meira en 100 ára sögu Veðurstofunnar er mér ekki kunnugt um að athugunarmenn á hennar vegum, hvort sem þeir eru á landi, sjó eða lofti hafi nokkru sinni þurft að greiða fyrir að afla henni veðurgagna eða annarra gagna. [...] Kostnaður við allan búnað og áhöld, hvort sem það eru mælitæki á staðnum, bækur, leiðbeiningar, forrit, tölvubúnaður og tengingar hefur alltaf verið að fullu greiddur og/eða þróaður af stofnuninni eða á kostnað hennar.“

Hann segir „fráleitt að útgerðir/sjómenn eigi að fara að greiða stórfé fyrir að koma daglegum aflaupplýsingum til Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar“. gso@mbl.is