Breska flugmóðurskipið Prince of Wales lagðist við Skarfabakka í Sundahöfn og er stærsta herskip, sem hingað hefur komið til hafnar. Aukinn varnarviðbúnaður er nú við landið vegna heræfinga og spennu í alþjóðamálum.
Heimsbyggðin varð áskynja um margvíslega stríðsglæpi Rússa í Úkraínu, þegar herir þeirra hörfuðu og í ljós komu skipulögð morð og níðingsverk gagnvart óbreyttum borgurum.
Úkraínskum flóttamönnum á Íslandi fjölgaði afnt og þétt, en hins vegar virtist móttöku þeirra í ýmsu ábótavant, þótt almenningur tæki vel við sér og hlypi undir bagga.
Búnaðarþing var haldið um liðna helgi, en þrátt fyrir að þar hafi margt þarflegt verið gert og sagt fór litlum sögum af því. Hins vegar kvisaðist út að forysta Framsóknarflokksins hefði átt í ýfingum við forystu Bændasamtakanna.
Frásagnir af Búnaðarþingi voru óljósar, en þó kom fram að fátt hefði orðið um kveðjur hjá Lilju Alfreðsdóttur varaformanni Framsóknar og Gunnari Þorgeirssyni formanni Bændasamtakanna, sem hefði ekki verið velkominn í móttöku flokksins þótt hann hafi verið boðinn þangað.
Grunnskólar víða um land hafa bannað nemendum notkun farsíma í skólanum og gera þeim að skilja þá eftir heima. Þeir segja símann litlu bæta við í skólastarfi en valda ónæði og einbeitingarleysi.
Samkvæmt skoðanakönnun hefur ferðahugur aukist með þjóðinni á ný eftir heimsfaraldurinn og hyggst rúmur helmingur þjóðarinnar fara til útlanda á komandi mánuðum. Áhugi á utanferðum er samt enn minni en var fyrir plágu.
Elín Pálmadóttir , blaðamaður Morgunblaðsins til áratuga og frumkvöðull í blaðamannastétt, lést í Reykjavík, 95 ára að aldri.
·
Í ljós kom að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra, viðhafði óviðurkvæmilegt orðbragð við eða um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, í móttöku flokksins á Búnaðarþingi. Þar vék hann að litarafti hennar, en hún er af erlendu bergi brotin.
Vigdís greindi frá þessu eftir að aðstoðarmaður Sigurðar Inga hafði borið sögusagnir þess efnis til baka. Í framhaldinu gaf hann út yfirlýsingu, þar sem hann rengdi frásögnina ekki og baðst afsökunar á orðum sínum ef þau hefðu einhvern sært.
Hart var að ráðherranum sótt vegna þessara orða, en hann vildi ekkert tjá sig um þau frekar og vísaði til yfirlýsingarinnar.
Þjónusta við úkraínskt flóttafólk á Íslandi var bætt til muna, meðal annars með sérstakri móttökumiðstöð í Domus Medica, en einnig var aðbúnaður þess bættur. Ríflega 600 manns eru komin til landsins.
Lagt var fram frumvarp um breytingar á lögum um flóttamenn til þess að bregðast við flóttamannastraumi frá Úkraínu. Þeir verða undanþegnir efnislegri meðferð hafi þeir hlotið vernd fyrir, en einnig eiga þeir að fá atvinnuleyfi sjálfkrafa.
Landsvirkjun féll frá skerðingum á raforkuafhendingu eftir að vatnsstaða snarbatnaði með áköfum rigningum og leysingum.
Landhelgisgæslan mun framvegis kaupa olíu á Íslandi en ekki Færeyjum, þótt hún sé margfalt dýrari hér á landi. Af þeim sökum verður úthaldsdögum fækkað þar til þingið lætur undan þrýstingnum og eykur fjárframlög sem því nemur.
Mikið ferðasumar virðist í vændum miðað við pantanir, en einnig eru veiðileyfi víða uppseld. Laxár Rússlands eru nú lokaðar vestrænum veiðimönnum og einhverjir þeirra vilja renna færi hér í staðinn.
Barnamenningarhátíð var sett í Reykjavík.
Aðalsteinn Aðalsteinsson , bóndi og veiðimaður, lést á Egilsstöðum níræður að aldri.
·
Mikil gagnrýni kom fram á framkvæmd 2. hluta einkavæðingar Íslandsbanka, þar sem fagfjárfestum var boðinn 22,5% hlutur í bankanum. Framkvæmdinni var talið verulega ábótavant og pólitískar ásakanir uppi um frændhygli og klíkuskap .
Mikil aðsókn hefur verið í athvörf flóttafólks frá Úkraínu, en eins er altalað að það hafi mætt einstakri velvild bæði fólks og fyrirtækja, þar sem margir hafi rétt hjálparhönd . Enn er þó talið að fjölga þurfi úrræðum, bæði í bráð og lengd.
Páll Magnússon , fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók oddvitasæti H-listans í Vestmannaeyjum, sem er klofningsframboð sjálfstæðismanna. Um leið gekk hann úr Sjálfstæðisflokknum og hætti í Dagmálum Morgunblaðsins.
Fiskifélagshúsið við Skúlagötu, sem síðar var kennt við Ríkisútvarpið og sjávarútveginn, verður tæmt á næstunni og gert upp í heild sinni, en það á að hýsa allnokkur ráðuneyti , sem verða á faraldsfæti þar til búið verður að fullklæða þilin með íbenholti og fílabeini, gulli, purpura og pelli.
Reykjavíkurskákmót Kviku var sett og þar etja kappi um 270 skákmenn frá 50 löndum. Enginn þó frá Rússlandi.
·Þrátt fyrir andstöðu Bankasýslunnar var birtur listi yfir þá fjárfesta, sem tóku þátt í 2. kafla einkavæðingar Íslandsbanka. Það lægði ekki öldurnar , þegar í ljós kom faðir fjármálaráðherra var þar á meðal, ýmsir aðilar sem efast mátti um hæfið hjá og jafnvel fólk sem komið hafði að söluferlinu.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samtök iðnaðarins telja þörf á enn fleiri íbúðum en þegar eru ráðgerðar. Þar hamli bæði lóðaskortur og skipulagstafir.
Drónaeftirlit Fiskistofu kom upp um stórfellt brottkast þorsks úr grásleppubátum, oft á stórum hrygningarþorski.
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir hefur aflað húsnæðis fyrir um eitt þúsund flóttamenn að beiðni félagsmálaráðuneytisins.
Ekki kemur aðeins fólk á flótta frá Úkraínu, heldur er nú unnið að því að flóttafólk geti tekið gæludýr með sér, bæði hunda og ketti.
Varðskipið Freyja verður málað á nýjan leik í sumar, en það kom hingað til lands flekkótt eftir siglingu frá Hollandi, þar sem það var afhent, og greinilega málað af viðvaningum.
Karen Halldórsdóttir , bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, gekk til liðs við Miðflokkinn og leiðir hann í komandi bæjarstjórnarkosningum þar. Hún hlaut ekki brautargengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í liðnum mánuði.
·Þrír Bandaríkjamenn, vanir fjallamenn, voru fluttir á sjúkrahús eftir að snjóflóð féll á þá í Svarfaðardal þar sem þeir fóru um á skíðum. Einn þeirra lést.
Íslenska kvennaliðið í fótbolta vann stórsigur á liði Hvítrússa í undanriðli heimsmeistaramótsins á næsta ári. Fyrirliðaband Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur var í úkraínsku fánalitunum.
Teppabúð í eigu manns sem ættaður er frá Mið-Austurlöndum fékk tvær af þremur hæstu sektum Neytendastofu undanfarin þrjú ár. Þórunn Anna Árnadóttir forstjóri Neytendastofu hefur engar skýringar gefið á því af hverju sú mismunun stafar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra óskaði þess að ríkisendurskoðandi athugaði söluferli hlutabréfa í Íslandsbanka. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafnaði því að val á fjárfestum hefði verið pólitískt, framkvæmdin hefði alfarið legið hjá Bankasýslunni.
Héraðssaksóknari handtók fólk og gerði húsleitir vegna rannsóknar á málum Innheimtustofnana sveitarfélaga. Ýmsir starfsmenn og stjórnendur virðast hafa misskilið hver ætti að innheimta hvern.
Áformað er að reisa sex vindmyllur í Grímsey , sem eiga að svala tæpum þriðjungi raforkuþorsta eyjarskeggja.